Öll starfsemi Vísis til Grindavíkur

Vísir hf. ætlar að flytja alla starfsemi fyrirtækisins til Grindavíkur. …
Vísir hf. ætlar að flytja alla starfsemi fyrirtækisins til Grindavíkur. Vinnslur félagsins á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík verða lagðar niður. Sigurður Bogi Sævarsson

Útgerðarfyrirtækið Vísir áformar að flytja alla fiskvinnslu fyrirtækisins í áföngum til Grindavíkur, en þar með munu starfsstöðvar félagsins á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík leggjast niður. Um fimmtíu starfsmenn vinna hjá félaginu á hverjum stað og gæti þetta því orðið nokkurt högg fyrir byggðarlögin. Vísir segist vonast til þess að sem flestir haldi vinnunni, en starfsfólki verður boðin vinna í Grindavík og aðstoðað verður við uppbyggingu og atvinnusköpun í því húsnæði sem fyrirtækið fer úr.

Í tilkynningu frá Vísi segir að miklar breytingar á erlendum mörkuðum og síauknar kröfur um ferskan fisk og sveigjanleika í framleiðslu kalli á breytingar. Til að vinna að því verður farið í breytingar sem miða að því að viðhalda óbreyttum fjölda starfsmanna en bæta framlegð fyrirtækisins sem lækkaði um 50% milli áranna 2012 og 2013. Hjá Vísi starfa um 200 manns við fiskvinnslu og 100 á skipum fyrirtækisins.

Fækka línuveiðibátum úr fimm í fjóra

Á liðnum árum hefur Vísir hf. byggt upp starfsemi á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík til viðbótar starfsemi fyrirtækisins í Grindavík. Á hverjum þessara staða starfa um 50 manns, bæði fólk með fasta búsetu á svæðunum og verkafólk sem auðveldara á með að færa sig um set. Stjórnendur Vísis skoða nú þann möguleika að flytja alla fiskvinnslu fyrirtækisins og tækjabúnað í áföngum til Grindavíkur en vinna um leið að uppbyggingu nýrra starfa í hinum bæjarfélögunum þremur. Línuveiðibátum fyrirtækisins verður fækkað úr fimm í fjóra. Sjómönnum útgerðarinnar mun fækka lítillega þar sem áhafnir verða sameinaðar.

Stjórnendur Vísis segjast í tilkynningunni vonast til þess að flestir haldi vinnu sinni, annaðhvort í breyttri mynd á sama stað, eða í sömu vinnu á nýjum stað. Nú þegar er fyrirtækið að skoða samvinnu við Fiskeldi Austurlands og eru uppi hugmyndir um að slátrun, vinnsla og pökkun á fiski þaðan verði í höndum Vísis. Það gæti kallað á 20 til 25 starfsmenn og munu starfsmenn Vísis með fasta búsetu á Djúpavogi hafa forgang að þeim störfum.

Húsnæði Vísis breytt í hótel?

Á Húsavík eru uppi hugmyndir um að breyta húsnæði Vísis í hótel eða þjónustuhús fyrir ferðamenn. Segir í tilkynningunni að stjórnendur Vísis muni vinna með væntanlegum kaupanda að því að skapa ný störf í bæjarfélaginu. Stefnt er að því að flytja fiskvinnsluna á Þingeyri ti Grindavíkur eftir eitt ár og verður tíminn fram að því notaður til að leggja grunn að annarri starfsemi í húsnæðinu á staðnum. Ekki eru enn komnar fram formlegar hugmyndir samkvæmt tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK