Mikilvægt að eyða lagalegu tómarúmi

Stjórnvöld telja mikilvægt að eyða lagalegu tómarúmi sem snýr að sýndarfé (e. virtual currency) hér á landi. Sýndarfé á borð við auroracoin og bitcoin sé hvorki viðurkenndur lögeyrir né gjaldmiðill í skilningi íslenskra laga og þá sé jafnframt mikilvægt að hafa í huga að móttaka verðmæta, svo sem sýndarfjár, geti haft í för með sér skattskyldu.

Fyrirbærið auroracoin, sem kallað hefur verið rafmynt eða sýndarfé í daglegu tali, er á flestra vörum um þessar mundir. Byrjað var að dreifa myntinni aðfaranótt þriðjudags, en hver og einn Íslendingur getur fengið úthlutaðar 31,8 einingar af henni. Það samsvarar um 19 þúsund krónum miðað við markaðsvirði myntarinnar í gær.

Ekki er vitað hver stendur á bak við verkefnið, en huldumaðurinn notast við nafnið Baldur Friggjar Óðinsson, sem vísar til norrænnar ásatrúar. Hann hefur sagt að um sé að ræða tilraun til þess að gefa Íslendingum tækifæri til að eiga í viðskiptum með mynt sem lúti ekki valdi stjórnmálamanna, bankakerfisins eða Seðlabanka Íslands.

Í gær höfðu rúmlega tuttugu þúsund Íslendingar, eða yfir sex prósent þjóðarinnar, sótt sér sína aura endurgjaldslaust.

Vara við notkun sýndarfjár

Stjórnvöld fylgjast grannt með þróuninni og hefur Seðlabankinn til dæmis málið til skoðunar. Hann, ásamt Fjármálaeftirlitinu, Neytendastofu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu, hefur varað almenning við hugsanlegri áhættu tengdri kaupum eða viðskiptum með sýndarfé.

Bankinn hefur bent á að slíkt sýndarfé sé hvorki viðurkenndur lögeyrir né gjaldmiðill í skilningi íslenskra laga. Ekki sé um að ræða rafeyri, heldur sé það í raun í einskonar lagalegu tómarúmi.

Seðlabankinn hefur einnig skoðað það hvort kaup og sala sýndarfjár brjóti í bága við gjaldeyrishöftin. Annars vegar er það mat bankans að ekki sé heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri til þess eins að kaupa sýndarfé og hins vegar telur hann að erlendur gjaldeyrir, sem var keyptur í skiptum fyrir sýndarfé, sé skilaskyldur samkvæmt gjaldeyrislögunum.

Stjórnvöld hafa jafnframt bent á að engin trygging, ef svo má að orði komast, sé á bak við auroracoin, enda sé enginn eiginlegur útgefandi fyrir hendi. Verðgildi sýndarfjár byggist eingöngu á framboði og eftirspurn og því hvíli uppgjörsáhættan alfarið á handhafa fjárins. Það sé ólíkt því sem gerist innan greiðslukerfis Seðlabankans, þar sem móttakandi greiðslu á ávallt kröfu á hendur Seðlabankanum.

Mögulega skattskylt

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins beinast nú spjótin að ríkisskattstjóra. Það er ekki bannað að taka við gjöf, en móttaka verðmæta, eins og auroracoin, getur haft í för með sér skattskyldu. Skattayfirvöld bandaríska ríkisins hafa til dæmis sagt að þau muni skattleggja sýndarfé sem eign, en ekki gjaldmiðil. Stjórnvöld í Japan hafa tekið í sama streng og sagt að öll viðskipti með slíkt fé eigi að vera skattskyld.

Málefni rafmynta hafa verið til skoðunar hjá stjórnvöldum víða um heim á undanförnum árum, bæði hérlendis og erlendis, og er markmiðið alls staðar það sama, að eyða því lagalega tómarúmi sem snýr að myntunum.

Keðjusagir fyrir aura

Það má með sanni segja að markaður hafi myndast þar sem Íslendingar nota auroracoin sem gjaldmiðil í viðskiptum sín á milli. Sprottið hafa upp síður á Facebook þar sem almenningi býðst að kaupa hluti af margvíslegu tagi í skiptum fyrir aura og þá hafa margir boðist til að kaupa og selja aura í skiptum fyrir krónur á vefnum bland.is.

Boðið er meðal annars upp á húsgögn, tölvur, síma, bíla, veðurmæla og keðjusagir í skiptum fyrir aura.

Nokkrir viðmælendur Morgunblaðsins skiptu aurunum sínum tiltölulega fljótt í aðra rafmynt, bitcoin, bitcoin svo í Bandaríkjadollara og dollurum loks í krónur. „Ég náði í aura fyrir fjölmarga ættingja og vini og græddi nokkur hundruð þúsund krónur á einum degi,“ nefnir einn og bætir við: „Þetta var tiltölulega auðvelt.“

Seðlabanki Íslands hefur varað við notkun sýndarfjár.
Seðlabanki Íslands hefur varað við notkun sýndarfjár. mbl.is/Ómar
Baldur Friggjar segir að stjórnmálamenn hafi misnotað vald sitt og …
Baldur Friggjar segir að stjórnmálamenn hafi misnotað vald sitt og að þeim hafi í raun tekist að eyðileggja þann gjaldmiðil sem þeir neyða Íslendinga til að nota. mbl.is/Júlíus
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK