Fjárfestingarkostum verði fjölgað

mbl.is/Ómar

Í frumvarpi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis er lagt til að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) til jafns við verðbréf sem skráð eru á skipulegan markað.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í dag. Það er byggt á frumvarpsdrögum sem Kauphöll Íslands sendi nefndinni haustið 2013. Nefndin tók drögin til umfjöllunar, tók á móti gestum og ræddi efni þeirra. 

Í greinargerð kemur fram að með frumvarpinu séu lagðar til breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.
   
„Auknar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða á markaðstorgum fjármálagerningu mundu fjölga þeim fjárfestingarkostum sem lífeyrissjóðum standa til boða og auka fjölbreytileika og áhættudreifingu í eignasöfnum þeirra með því að gera þeim kleift að fjárfesta í auknum mæli í smáum og meðalstórum fyrirtækjum innan trausts ramma,“ segir í greinargerðinni.

Að sama skapi fæli breytingin í sér bætt aðgengi slíkra fyrirtækja að fjármagni sem stuðlar að auknum fjárfestingum og hagvexti til lengri tíma. Hagur lífeyrissjóðanna sé mjög háður langtímahagvexti enda sé aukin verðmætasköpun forsenda þess að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar.

Við vinnslu frumvarpsdraganna horfði Kauphöll Íslands til Danmerkur þar sem lífeyrissjóðum er heimilað að fjárfesta í hlutabréfum sem skráð eru á markaðstorgi fjármálagerninga með sömu skilyrðum og ef um hlutabréf sem skráð eru á skipulegum markaði væri að ræða.

„Er sú heimild studd þeim rökum að vernd fjárfesta sé tryggð með sambærilegum hætti á markaðstorgum fjármálagerninga og á skipulegum mörkuðum,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK