Nýjar leiðir hækka verð gagnamagns

Síminn og Vodafone eru nýbyrjuð að bjóða upp á nýjar …
Síminn og Vodafone eru nýbyrjuð að bjóða upp á nýjar þjónustuleiðir þar ótakmarkaður fjöldi mínútna er í boði. Verð gagnamagns er á sama tíma að hækka mikið. Mynd/mbl.is

Á dögunum voru nýjar þjónustuleiðir símafyrirtækjanna Vodafone og Símans kynntar, en grunnstefið í þeim er að viðskiptavinir þurfi ekki lengur að velta fyrir sér mínútum og fjölda SMS skeyta, heldur aðeins gagnamagni. Talað er um „hindrunarlausan aðgang að internetinu“ og að fólk geti talað og sent SMS eins og það vilji. En er raunverulega um að ræða mikla búbót fyrir neytendur? Mbl.is rýndi aðeins í verðskrá fyrirtækjanna og komst að því að fyrir stóran hluta viðskiptavina er óhagstætt að flytja sig yfir í þessar nýju leiðir og að verð gagnamagns hækkar gífurlega mikið.

Gagnamagn hækkar í verði um 153% hjá Vodafone...

Ódýrasta leiðin hjá báðum fyrirtækjunum kostar 5.990 krónur, en með þeim leiðum fylgir 500 megabæta gagnamagnspakki. Innifalið í því er að hringja og senda SMS án takmarkana, en ef viðskiptavinir vilja stærri gagnamagnspakka er hægt að stækka áskriftarleiðirnar í allt að 5 gígabæti. Hjá Vodafone kostar stærsti pakkinn með 5 gígabætum 10.990 krónur. Þar sem enginn munur er á mínútufjölda símtala eða SMS fjölda, þar sem bæði eru ótakmörkuð, má gera ráð fyrir að kostnaðaraukningin stafi aðeins af aukningu í gagnamagni. Þessi auka 4,5 gígabæti kosta því samtals 5.000 krónur, eða 1.111 krónur á hvert gígabæti.

Í verðskrá fyrirtækisins, sem kynnt er sem eldri verðskrá á heimasíðu Vodafone, má sjá að hægt var að fá 5 gígabæta gagnamagnspakka fyrir 2.190 krónur. Það gerir 438 krónur á hvert auka-gígabæti. Því er um að ræða 153% hækkun á kostnaði fyrir gagnamagn með nýju leiðinni. Það skal þó tekið fram að þegar blaðamaður leitaði eftir því við Vodafone hvort hægt væri að auka gagnamagnið út frá gömlu verðskránni var það sagt mögulegt, þrátt fyrir að vera ekki í nýju verðskránni. Það er því nokkuð óljóst fyrir viðskiptavini hvort sú leið sé í boði eða ekki.

...og um 174% hjá Símanum

Hjá Símanum er svipað upp á teningnum, en ódýrasta leiðin með 500 megabætum kostar 5.990 krónur, eins og hjá Vodafone. Ef viðskiptavinir vilja auka gagnamagnið geta þeir farið upp í 3 gígabæti, en þá kostar pakkinn 8.990. Hækkunin er því 3.000 krónur fyrir 2,5 gígabæti, eða 1200 krónur á hvert gígabæti. Á sama tíma býður Síminn gagnamagnspakka upp á 5 gígabæti fyrir 2.190 krónur, eða gígabætið á 438 krónur. Þarna er því um 174% hækkun að ræða.

Það má því sjá að með því að taka ódýrasta pakkann og bæta við 5 gígabæta gagnamagni fást hagstæðari kaup en með því að taka strax stærsta nýja pakkann, þrátt fyrir að minna gagnamagn sé innifalið í honum.

Gagnamagn alltaf að aukast

Í tilkynningum fyrirtækjanna var tekið fram að aukin notkun gagnamagns væri það sem koma skyldi og væri alltaf að aukast. Vodafone segir að „farsímaþjónusta framtíðarinnar muni fyrst og fremst snúast um gagnaflutninga.“ Miðað við vinsældir snjallsíma, streymisþjónusta og allskonar forrita fyrir farsíma má leiða líkur að því að gagnaflutningar muni aukast enn meira á komandi árum á sama tíma og hefðbundin símaþjónusta og smáskilaboð gætu dregist saman. Meðal annars hafa vinsæl forrit, eins og Skype og Whatsapp fært símaþjónustu úr venjulegum símtölum yfir í að vera talin í gagnamagni. Í tilkynningu

Gömlu pakkarnir geta verið ódýrari

Síðustu ár hafa símafyrirtækin boðið upp á leiðir þar sem viðskiptavinir fá ákveðið margar mínútur innifaldar í verði áskriftarinnar. Vodafone hefur meðal annars boðið upp á 250, 500 og 1.000 mínútna áskriftir. Stærsti pakkinn er með inniföldum 1.000 mínútum og 500 megabæta gagnamagni. Sé 5 gígabætum bætt við er heildarkostnaður pakkans 10.210 krónur, en það er enn tæplega 800 krónum minna en nýja áskriftin með ótakmörkuðum mínútum og 5 gígabæta gagnamagni. Svipað er upp á teningnum með miðleiðina, telji viðskiptavinur að 500 mínútur á mánuði dugi. Þá getur hann fengið tvöfalt meira gagnamagn með gömlu leiðunum og borgað 1.820 krónum minna en með nýrri leið sem hefur 2,5 gígabæti í gagnamagn.

Staðan er svipuð hjá Símanum, en þar var áður í boði áskriftaleið með 500 mínútum og 500 megabæta gagnamagni fyrir 4.990 krónur. Að viðbættum 5 gígabæta gagnapakka er heildarverðið 7.180 krónur, en það er nokkuð lægra en 3 gígabæta pakki er í boði með nýju leiðinni.

Fyrir þá sem hringja mjög mikið og nota netið lítið

Miðað við ofangreinda skoðun má því spyrja sig hvort breytingarnar séu í raun „nýjar og hagstæðari áskriftarleiðir,“ eins og það er orðað á síðu Vodafone, eða hvað fáist í raun fyrir að fá ótakmarkaðan mínútufjölda. Ljóst er að nýju áskriftaleiðirnar geta verið hagstæðar fyrir þá sem nota símann til að hringja og senda SMS gífurlega mikið, en lítið fyrir netumferð. Fyrir aðra gæti ný leið, sem býður upp á ótakmarkaðan fjölda mínútna, endað með að kosta talsvert meira og fyrir þá sem eru farnir að nýta símana í mikinn gagnaflutning eru þessar nýju leiðir líklega töluvert óhagkvæmar.

Miðað við yfirlýsingar um að farsímaþjónusta framtíðarinnar muni fyrst og fremst snúast um gagnaflutninga er því athugavert að símafyrirtækin ákveði að fara þá leið að hækka verð á áskriftaleiðum þar sem mikið gagnamagn er í boði, meðan áherslan er sett á venjuleg símtöl og smáskilaboð.

Meðan fréttin var í vinnslu sendi Tal einnig frá sér tilkynningu um að svipuð þjónusta væri nú í boði hjá fyrirtækinu. 

Notkun snjallsíma fer vaxandi og gagnaflutningar hafa aukist síðustu ár. …
Notkun snjallsíma fer vaxandi og gagnaflutningar hafa aukist síðustu ár. Með nýjustu áskriftarleiðum sínum hækka símafyrirtækin verð á stærri gagnapökkum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK