Samkeppniseftirlitið hefur sett kaupum Festis á hluta af innlendri starfsemi Norvik skilyrði, en þeim er meðal annars ætlað að tryggja sjálfstæði hinna keyptu félaga sem keppinauta á þeim mörkuðum sem þau starfa á.
Eftirlitið hefur haft samrunann til athugunar og var það mat þess að nauðsynlegt væri að grípa til íhlutunar í málinu.
Eins og greint hefur verið frá hefur SÍA II, framtakssjóður í rekstri Stefnis, ásamt hópi fjárfesta gengið frá kaupum á hluta af innlendri starfsemi Norvik í gegnum Festi hf., sem verður nýtt móðurfélag hinna seldu félaga.
Með kaupunum tekur Festi yfir rekstur Kaupáss, sem rekur matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Nóatúns og Kjarvals, Elko, Intersport, auglýsingastofunnar Expo og vöruhótelsins Bakkans. Þá hefur Festi jafnframt gengið frá kaupum á hluta af fasteignasafni Smáragarðs.
Samkeppniseftirlitið telur að hin samkeppnislegu vandamál sem geta leitt af samrunanum felist meðal annars í eftirfarandi:
Þá segir í frétt á vef eftirlitsins að undanfarið, og jafnframt í tengslum við rannsókn þessa máls, hafi það kannað með almennum hætti hvernig eignarhald á atvinnufyrirtækjum hafi þróast í kjölfar bankahrunsins.
„Þessi athugun hefur leitt í ljós að aðkoma lífeyrissjóða að eignarhaldi fyrirtækja hefur vaxið hröðum skrefum á meðan eignarhald banka og skilanefnda á rekstrarfélögum hefur dregist saman.
Minnkandi eignarhlutur banka í samkeppnisfyrirtækjum er jákvæður en vaxandi eignarhlutur lífeyrissjóða, meðal annars í gegnum framtakssjóði, kallar á umræðu um aðkomu þeirra að slíku eignarhaldi og með hvaða hætti nauðsynlegt er að standa vörð um virka samkeppni við þær aðstæður,” segir í fréttinni.
Að mati Samkeppniseftirlitsins er því hætta á því að óskýrt eignarhald og takmarkað eigendaaðhald í atvinnufyrirtækjum geti leitt til röskunar á samkeppni.
Eftirlitið telur ljóst í þessu samhengi að umsvif lífeyrissjóða í fjárfestingum í atvinnufyrirtækjum komi til með að hafa afgerandi áhrif á þróun samkeppnismarkaða á næstu árum.