Meira flutt út í dollurum en evrum

Frosti Sigurjónsson, alþingismaður.
Frosti Sigurjónsson, alþingismaður.

Tvöfalt meira er flutt út frá Íslandi í dollurum en evrum. Þetta fullyrðir Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og þingmaður Framsóknarflokksins, á vefsíðu sinni. Þá sé innflutningur til landsins að sama skapi meiri í dollurum en evrum.

„Sá misskilningur virðist nokkuð útbreiddur að meiri hluti inn- og útflutnings Íslands sé í evru en það er rangt. Ísland flytur ríflega tvöfalt meira út í dollar en í evru. Innflutningur er einnig meiri í dollurum en evrum. Þessi misskilningur gæti stafað af því hve miklu af útflutningi er umskipað í Hollandi sem er evruland. En sá útflutningur er að miklu leyti í dollurum og endanlegur áfangastaður ekki Holland nema að litlu leyti,“ segir hann.

Vísar Frosti í því sambandi til upplýsinga á vef Hagstofu Íslands um skiptingu út- og innflutnings eftir gjaldmiðlum. Framsetningin kunni þó að þykja villandi því heiti gjaldmiðlanna komi ekki fram heldur einungis nöfn þeirra landa sem gefa þá út. Birtir hann myndrit upp úr upplýsingum Hagstofunnar en samkvæmt því voru 56% útflutnings héðan í dollurum árið 2012 en 27% í evrum og 36% innflutnings í dollurum en 32% í evrum.

Frosti staldrar síðan við það að nokkur hluti innflutnings hafi verið í íslenskum krónum eða sem nemur 35 milljörðum króna. „Er ekki líklegt að sá sem fékk krónurnar hafi farið með þær aftur til Íslands fjárfestingaleiðina á 20% afslætti? Hvað sem því líður, þá finnst mér löngu tímabært að loka fyrir þá mismunun að sumir geti fengið krónur á lægra verði en aðrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka