Ísland er háskattaland

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, á aðalfundi samtakanna í dag.
Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, á aðalfundi samtakanna í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og formaður Samtaka atvinnulífsins, segir að Ísland sé háskattaland þegar tekið sé tillit til greiðslna í lífeyrissjóði. Verði lífeyrissjóðum áfram bannað að fjárfesta erlendis muni það leiða til þess að þeir munu á örfáum áratugum eignast verðmæti sem samsvara virði alls atvinnulífs og íbúðarhúsnæðis í landinu.

„Það er með öllu óviðunandi framtíðarsýn,“ sagði hann í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í Hörpu í dag.

Hann benti jafnframt á að útgjöld hins opinbera væru mikil. Af ríkjum innan OECD verði Ísland þriðja hæsta hlutfallinu til opinberrar þjónustu, fjórða hæsta hlutfallinu til heilbrigðismála og hæsta hlutfallinu til menntamála.

„Þrátt fyrir þetta er árangurinn lakari en efni standa til. Við eyðum miklu en fáum of lítið í staðinn,“ sagði hann.

„Undanfarin ár hefur ríkissjóður verið rekinn með miklum halla og því nauðsynlegt að ná afgangi af rekstrinum sem fyrst og greiða niður skuldir. Í fjárlögum 2014 er gert ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs en skuldir ríkissjóðs eru ógnvænlega háar eða um 125% af landsframleiðslu að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum,“ sagði hann jafnframt.

Undanfarin ár hefðu skattar verið hækkaðir langt umfram það sem skynsamlegt væri. Þeir gætu valdið alvarlegum skaða í efnahagslífinu og dregið úr þrótti og skilvirkni fyrirtækjanna.

„Nauðsynlegt er að einfalda skattkerfið og leggja áherslu á breiða skattstofna og lægri skatthlutföll og að undanþágur verði sem fæstar. Einnig verður að lækka útgjöld hins opinbera. Vænlegast til árangurs í opinberum fjármálum er að stuðla að fjölgun skattgreiðenda og auknum umsvifum í hagkerfinu með góðum rekstrarskilyrðum atvinnulífsins,“ nefndi hann.

Auðvelt að vera stórhuga fyrir annarra manna fé

Björgólfur vísaði jafnframt í Auðfræði séra Arnljóts Ólafssonar sem sagði að hver sá sem vildi vera ör á hjálpinni og góðgerðaseminni og útbýta til þess almannafé, hann hlyti að vera jafnör á aukning tolla og íþyngd skatta.

„Þetta mega stjórnmálamennirnir hugleiða áður en þeir leggja fram tillögur um ný útgjöld eða nýjar framkvæmdir hvort sem það eru jarðgöng, vegaframkvæmdir, ný áburðarverksmiðja eða háhraðalest og flutningur flugvallar. Það er auðvelt að vera stórhuga fyrir annarra manna fé.“

Björgólfur var endurkjörinn formaður samtakanna á aðalfundinum. Hann var kjörinn með rúmlega 96% greiddra atkvæða í rafrænni atkvæðagreiðslu sem fram fór meðal aðildarfyrirtækja SA. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK