Það stefnir í að nýjar höfuðstöðvar Landsbankans verði reistar á reit númer 6 við Austurhöfn, en Sítus, eigandi lóðarinnar, hefur ákveðið að ganga til samninga við Landsbankans eftir útboð sem lauk í gær. Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir að staðsetningin sé vænlegur kostur fyrir nýjar höfuðstöðvar. Aðspurður hvort að uppi hafi verið önnur áform en að reisa nýjar höfuðstöðvar þegar sótt var um lóðina svarar hann því neitandi. Hann ítrekar þó að bankaráð hafi þó enn ekki tekið lokaákvörðun í málinu eða ákveðið framtíðarstaðsetningu bankans. Kristján segir þá ákvörðun væntanlega liggja fyrir á næstunni.
Fyrir þremur árum óskaði Reykjavíkurborg eftir greinargerð frá Landsbankanum og fleiri fyrirtækjum um framtíð þeirra í miðborginni. Í svari bankans kom fram að hann teldi sig vera miðbæjarfyrirtæki sem vildi áfram vera þar. Kristján segir þó að bankinn útiloki ekki að fara annað liggi svo undir, en að vilji sé þó fyrir að vera áfram miðsvæðis.
Í dag er Landsbankinn í um 15 húsum í miðbænum og segir Kristján að því fylgi mikið óhagkvæmi. Bæði sé húsnæðið ekki hugsað fyrir svo stóra starfsemi sem fylgi bankanum og þá eigi bankinn ekki allar eignirnar. Þannig séu mislangir leigusamningar í gildi sem skapi rekstraráhættu. Segir hann að því fylgi margvísileg rök að færa höfuðstöðvarnar undir eitt þak.
Heildarbyggingarmagn á reitnum er 16.500 fermetrar, en af þeim eru 14.500 ofanjarðar. Þar er gert ráð fyrir verslun og þjónustu, en undir skipulagið fellur einnig rekstur banka- eða fjármálastofnana. Áður hafði komið fram í tilkynningu frá bankanum að nýjar höfuðstöðvar þyrftu að vera 14-15.000 fermetrar og að það myndi spara 3-4.000 fermetra miðað við núverandi skipulag.