Með því að byggja og reka félagslegt húsnæðiskerfi sem er í höndum húsnæðissamvinnufélaga væri hægt að lækka leigukostnað gífurlega mikið fyrir tekjulágar fjölskyldur hér á landi. Þetta kemur fram í nýrri samantekt sem ASÍ kynnti í morgun. Miðað er við að 14% af stofnframlagi við kerfið komi frá sveitarfélögum, t.d. í formi lóða eða gatnagerðargjalda og 2% frá íbúum sjálfum. Afgangurinn, eða 84%, væri veitt með almennu húsnæðisláni þar sem ríkið skuldbindur sig til að niðurgreiða vexti með sérstökum samningi. Þá er í tillögum ASÍ gert ráð fyrir að sveitarfélög ábyrgist þann hluta lána sem fara umfram 65% af verðmæti húsnæðisins.
Miðað við útreikninga ASÍ gæti nýtt kerfi lækkað leigu fyrir 77 fermetra þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu úr 135 þúsund á mánuði niður í um 61 þúsund. Svipuð íbúð á landsbyggðinni gæti lækkað úr 86 þúsund niður í 29 þúsund. Þegar horft er á leigukostnað sem hlutfall af tekjum tekjulágra heimila gæti hlutfallið farið niður í um 21% til 24%.
ASÍ ráðgerir að kerfið verði í höndum sveitarfélaganna, þar sem stuðningur er háður því að viðkomandi sveitarfélag hafi samþykkt að markmið viðkomandi samvinnufélags samræmist og séu innan þess ramma sem dreginn er utan um húsnæðisaðstoð við íbúana. Ríkið gefur út heimildir fyrir tilteknum fjölda íbúða í viðkomandi sveitarfélagi og sé í framhaldinu skuldbundið til að taka þátt í greiðslu vaxta á líftíma þess láns sem aflað er.
Ekki er gert ráð fyrir að breytt félagsleg staða íbúa muni raska búseturétti eftir að þeir eru komnir inn í kerfið. Þegar haft er í huga að þetta er leigukerfi sem miðar við litlar, hóflegar íbúðir má ætla að fólk fari út úr kerfinu ef fjárhagur þess vænkast verulega.
Ef gengið er út frá ofangreindum forsendum og kerfið byggt upp tiltölulega hratt næstu fimm árin með samtals 1000 íbúðum á ári og síðan 600 íbúðum eftir það áætlar ASÍ að framlag sveitarfélaga verði mest 2,8 milljarðar á ári, en fari svo lækkandi. Kostnaður ríkisins byrjar aftur á móti í 600 milljónum en vex í 6,3 milljarða. Ráðgert er að kerfið gæti orðið verða fjárhagslega sjálfbært á einni starfsævi og náð til fimmtungs alls íbúðahúsnæðis.