Rauði þráðurinn í aðkomu ríkisvaldsins að nýsköpunarfyrirtækjum eru tvö tæki sem virka mjög vel, en það eru samkeppnissjóðir og ívilnanir vegna rannsókna og þróunar. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, en á fimmtudaginn var haldið Nýsköpunarþing. Í samtali við mbl.is segir Ragnheiður að gera þurfi meira í að draga að framtaksfjármagn til landsins og deildi áhyggjum með mörgum fundargestum þingsins þess efnis að frumkvöðlafyrirtæki á seinni stigum færu úr landi.
Þessa stundina er vísinda- og tækniráð í samvinnu við ríkisstjórnina að marka stefnu til framtíðar í nýsköpunarmálum og segir Ragnheiður að sérstaklega verði horft til samkeppnissjóða og endurgreiðslu vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Sagði hún að í samtölum sínum við einstaklinga og fyrirtæki um allt land á síðustu misserum hefði komið í ljós að þessi tvö atriði væru þau sem skiptu flesta máli. Þannig sagði hún að mörg dæmi væru um að frumkvöðlafyrirtæki skiluðu mun hærri upphæð til baka í formi skatta heldur en þau hefðu fengið gegnum svona kerfi. Nefndi hún sérstaklega Nox Medical í því sambandi, en fyrirtækið fékk bæði styrk frá Tækniþróunarsjóði og hefur á síðustu árum fenguð endurgreiðslu á þróunarkostnaði.
Ragnheiður sagði að vandað styrkjaumhverfi hefði fjölbreyttari áhrif en bara beinar peningagreiðslur. „Við sjáum hversu vel þetta umsóknarferli nýtist fyrirtækjum. Það eru gerðar kröfur og þú færð ekki fjármagn nema þú standir þig og þetta er lærdómskúrfa fyrir fyrirtækin. Við ætlum að hlúa að því og munum í tengslum við fjárlagagerðina taka ákvarðanir sem vonandi verða til þess að hægt verði að styðja dyggilega við bakið á þessum sjóð,“ segir Ragnheiður.
Fyrri ríkisstjórn lofaði hækkandi framlögum í Tækniþróunarsjóð í fjárfestingaáætlun sinni, en núverandi ríkisstjórn dró úr þeim loforðum og lækkaði áformaða upphæð um 22% í fjárlagafrumvarpi sínu. Ragnheiður segir ekki rétt að tala um skerðingu í því sambandi, því ekki hafi verið búið að finna fjármagnið í þess aðgerð. Aðspurð um hvort hún sjái fyrir sér að hækka upphæðir í sjóðina segist hún vilja styrkja þá, en að upphæðir muni koma í ljós seinna í ferlinu,
Á þinginu flutti Petri Rouvinen, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarstofnun um finnskan efnahag, áhugavert erindi þar sem hann benti á að Ísland kæmi mjög vel út í samanburði við önnur Evrópulönd þegar horft væri á nýsköpun og fyrstu skref slíkra fyrirtækja. Aftur á móti tæki að halla undan fæti þegar liði á og að stökkið frá litlu frumkvöðlafyrirtæki yfir í alþjóðlegt fyrirtæki væri ekki jafn vænlegt hér og í mörgum löndum.
Ragnheiður tekur undir þessar áhyggjur og segist hafa heyrt þær víða. Segir hún að Íslendingum gangi vel að búa til fyrirtæki og séu frjóir í hugsun. Aftur á móti þurfi að bæta það svið að draga að framtaksfjármögnun úr einkageiranum, en slíkt sé mjög takmarkað hér á landi. „Það þarf að skapa skilyrði þannig að fjárfestar leiti hingað, t.d. að skoða þetta í tengslum við skattakerfið eða aðkomu lífeyrissjóðina,“ segir hún og bætir við að vinna við aðkomu lífeyrissjóðanna sé nú til skoðunar hjá fjármálaráðherra.
Samkvæmt Rouvinen þurfa upphæðirnar að vera töluvert háar þegar verið er að fjárfesta í fyrirtæki sem á að ná langt á alþjóðavettvangi. Höftin geta því haft töluverð áhrif á hvort fjárfestar eru tilbúnir að koma hingað. Ragnheiður segir að við getum ekki sætt okkur við þau um aldur og ævi og að það þurfi að aflétta þeim sem allra fyrst. Segist hún vonast til að fyrstu skrefin í þá átt verði tekin seinna á árinu, en þangað til þurfi ráðuneytið og ríkisstjórnin að passa upp á að aðstoða fyrirtæki, ekki síst stækkandi hátæknifyrirtæki, í að komast gegnum höftin.