Hundruð starfa í Helguvík

Hér má sjá yfirlitsmynd yfir svæðið, en í bakgrunni fyrir …
Hér má sjá yfirlitsmynd yfir svæðið, en í bakgrunni fyrir miðju má sjá Rockville og lengra vestur sést í Sandgerði.

Þrátt fyrir að áform um álver í Helguvík hafi verið mest í umfjölluninni undanfarin ár eru nokkur önnur fyrirtæki sem hafa ákveðið að fara í uppbyggingu þar eða eru að skoða möguleika á að byggja upp. Í síðustu viku var meðal annars greint frá því að Thorsil ehf. hefði undirritað samning um 160 þúsund fermetra iðnaðarlóð þar sem á að reisa kísilmálmverksmiðju. Þá var 12 milljarða fjárfestingasamningur undirritaður við United Silicon vegna fyrirhugaðs kísilvers félagsins í Helguvík.

Kísilver, vatnsverksmiðja og kísilmálmverksmiðja næst í röðinni

Fyrir á staðnum voru Aalborg Portland sement og Síldarvinnslan með loðnubræðslu. Þá hefur vatnsverksmiðja fengið lóð og skoðar uppbyggingu á svæðinu. Pétur Jóhannsson, framkvæmdastjóri atvinnu- og hafnasviðs Reykjanesbæjar, segir í samtali við mbl.is að uppbygging United Silicon muni hefjast í sumar, en að Thorsil sé enn í umhverfismati. Verði ekki gerðar athugasemdir gætu framkvæmdir þeirra hafist eftir áramót.

Áætluð ársframleiðsla kísilvers United Silicon er 21.000 tonn af kísli og 7.500 tonn af kísilryki. Gert er ráð fyrir að 60 starfsmenn komi til með að vinna við verksmiðjuna og starfsmenn við byggingu hennar verði allt að 200. Þegar lóðasamningur við Thorsil var undirritaður kom fram að verksmiðjan muni framleiða um 54.000 tonn af kílmálmi á ári og nota til þess 87 megavött af raforku á klukkustund eða um 730 gígavattsstundir á ári. Áætlað er að 130 starfsmenn muni starfa hjá verksmiðjunni og er stefnt að því að hefja framleiðslu í lok árs 2016.

Hundruð eða þúsundir starfa

Sorpbrennslustöðin Kalka og olíubirgðastöðin, sem Olíudreifing ehf. annast, en er í eigu NATO, hafa einnig verið á svæðinu í nokkurn tíma. Í skipulagi fyrir svæðið er gert ráð fyrir nokkrum tugum atvinnulóða til viðbótar, svo ljóst er að með tíð og tíma má gera ráð fyrir að á svæðinu starfi hundruð starfsmanna, ef ekki þúsundir.

Norðurhluti Ásbrúar í skoðun

Þá bendir Pétur á að einnig sé verið að skoða framtíðaruppbyggingu á norðursvæði Ásbrúar, en þar er meðal annars Rockville. Segir hann að samstarfsvettvangur sé kominn í gang milli sveitarfélaganna á svæðinu um hvað sé hægt að gera þar, en Pétur segir ljóst að það gæti orðið iðnaður sem tengist bæði fluginu og fyrirhugaðri uppbyggingu í Helguvík.

Fyrirhugað álver er með stærstu lóðina við Helguvík, en auk …
Fyrirhugað álver er með stærstu lóðina við Helguvík, en auk þess eru tugir stórra og minni lóða á svæðinu.
Norður Ásbrúarsvæðið er í eigu þróunarfélagsins Kadeco, en samstarfshópur á …
Norður Ásbrúarsvæðið er í eigu þróunarfélagsins Kadeco, en samstarfshópur á vegum Sandgerðisbæjar, Reykjanesbæjar og Garðsins hefur verið að störfum um framtíðaruppbyggingu á svæðinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK