Eimskip hefur ráðið The Yucaipa Companies (TYC) til ráðgjafar við að finna fjárfestingatækifæri og efla starfsemi félagsins með það að markmiði að vera leiðandi flutningafélag á Norður-Atlantshafi. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. TYC mun meðal annars veita félaginu ákveðna fjármálaráðgjöf við útfærslu markmiðsins.
Í tilkynningunni segir að TYC hafi víðtæka reynslu á sviði fjárfestinga og hefur lokið meira en 60 yfirtökum samtals að verðmæti yfir 35 milljarðar dollara. TYC kom að skipulagningu og framkvæmd endurskipulagningar Eimskips árið 2009. TYC eru stærsti hluthafi Eimskips sem á 27% af útistandandi hlutafé félagsins. Þá segir að það séu sameiginlegir hagsmunir félagsins og TYC að auka verðmæti hluthafa.
„Yucaipa Companies hafa tekið þátt í rekstri félagsins síðan árið 2009. Þekking Yucaipa á félaginu og reynsla af alþjóðlegum viðskiptum koma bæði félaginu og hluthöfum þess til góða,“ er haft eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, í tilkynningunni.