Nova að stinga af

Samkvæmt tölfræðiupplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun er Nova að stinga …
Samkvæmt tölfræðiupplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun er Nova að stinga önnur fjarskiptafyrirtæki af þegar kemur að fluttu gagnamagni. Rósa Braga

Fjarskiptafyrirtækið Nova er að stinga af aðra samkeppnisaðila þegar kemur að gagnaflutningi í farsíma og gegnum 4G punga og viðlíka þjónustu. Í fyrra tvöfaldaðist það gagnamagn sem önnur fjarskiptafyrirtæki fluttu, en Nova náði á sama tíma að fjórfalda flutt gagnamagn hjá sér. Þetta vekur athygli, enda hafa menn í auknum mæli talað um að í framtíðinni muni gagnaflutningar skipta mestu máli í farsímaþjónustu.

122% aukning í gagnaflutningi milli ára

Í tölfræðisamantekt Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að heildargagnamagn sem flutt var á farsímaneti og í gagnaáskrift hafi numið um 2.690 terabætum á síðasta ári. Það er aukning upp á 122% milli ára, en árið 2012 var þessi tala 1.211 terabæti. Á farsímanetinu var aukningin 190% og nam 692 terabætum, meðan aukningin var um 105% í gagnaáskrift og nam 1.998 terabætum.

Árið 2012 voru Síminn og Nova nokkuð svipuð þegar kom að fluttu gagnamagni á farsímanetinu, en þá flutti Nova 89 terabæti en Síminn 87 terabæti. Á síðasta ári varð aftur á móti mikil breyting þar sem Nova jók við flutt gagnamagn og var það 364 terabæti í fyrra, miðað við 179 terabæti hjá Símanum. 

Nova með 62% af gagnaflutningi á 3G og 4G netum

Svipaða sögu er að segja af gagnaáskriftum, en árið 2012 flutti Nova 436 terabæti meðan Síminn flutti 393 terabæti. Í fyrra var aukningin hjá Nova um 200% og var 1.314 terabæti meðan aukningin hjá Símanum var um 23% og nam 484 terabætum. Í dag er því Nova komið með 62% af gagnaflutningi í gegnum farsímanet og gagnaáskrift í gegnum 3G og 4G kerfin.

Framtíðin mun fyrst og fremst snúast um gagnaflutninga

Þetta er áhugavert í ljósi þess að í síðasta mánuði, þegar fjarskiptafyrirtækin hófu að kynna nýja áskrift með endalausum mínútum, þá sagði í tilkynningu frá Vodafone að gagnamagnsflutningar á farsímanetum væri framtíðin.  „Fjölbreyttir notkunarmöguleikar snjallsímanna hafa orðið til þess að gagnamagnsnotkun í farsímakerfinu hefur aukist gríðarlega og samhliða hefur þörfin fyrir hindrunarlausan aðgang að internetinu hvar og hvenær sem er aukist til muna. Því hefur um nokkurt skeið blasað við að farsímaþjónusta framtíðarinnar muni fyrst og fremst snúast um gagnaflutninga,“ sagði í tilkynningunni.

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova.
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK