Pier Carlo Padoan, efnahagsmálaráðherra Ítalíu, er bjartsýnn á að hagvöxtur í landinu verði meiri en sá 0,8% vöxtur sem sérfræðingar ítölsku ríkisstjórnarinnar hafa spáð á þessu ári. Hann vill þó ekki nefna neinar tölur í þessu sambandi.
Í viðtali í ítalska blaðinu Corriere della Sera var Padoan spurður hvort hann trúði því að hagvöxturinn gæti orðið meiri en 0,8% á árinu. „Ég tel svo vera, þó svo að ég geti ekki lagt mat á það hversu mikill hann verður,“ sagði hann.
Ítalska hagkerfið dróst saman á árunum 2012 og 2013 en nú er útlit fyrir að hagvöxturinn sé aðeins að taka við sér. Örlítill hagvöxtur mældist á fjórða fjórðungi seinasta árs og spá, eins og áður sagði, hagfræðingar ríkisstjórnarinnar 0,8% hagvexti á þessu ári.
Þeir hagfræðingar sem Reuters ræddi við telja þó líklegra að hagvöxturinn verði í kringum 0,6%.
Padoan telur jafnframt að þær skattalækkanir sem Matteo Renzi, nýr forsætisráðherra Ítalíu, hefur boðað muni örva hagvöxt og koma hjólum atvinnulífsins að sama skapi í gang á nýjan leik.