Rekstrarhagnaður og bókhaldslegur hagnaður íslenskra fyrirtækja hefur aldrei verið meiri en hann var árið 2012. Ljóst er að atvinnulífið náði þetta árið að taka mikið við sér eftir áföll áranna á undan þar sem met voru slegin í tapi. Rekstrarhagnaður fyrirtækja á landinu nam um þúsund milljörðum en hagnaður samkvæmt ársreikningi var rúmlega 1.800 milljarðar. Þetta kemur fram í samantekt í Tíund, tímariti Ríkisskattstjóra.
Fyrirtækjum bar að skila skattframtölum fyrir árið 2012 í september á síðasta ári, en í febrúar á þessu ári voru skil komin í rúmlega 30 þúsund. Í samantekt sem Páll Kolbeins, rekstrarhagfræðingur, hefur tekið saman sést að rekstrartekjur fyrirtækja hafa frá árinu 2009 hækkað um 15,7%, en árin 2008 og 2009 lækkuðu þær um 20,8%.
Hagnaður af rekstri hækkaði mikið á árunum 2000 til 2007 og nam hæst 724 milljörðum árið 2007, en lækkaði svo í kjölfar hrunsins. Árin 2010 og 2011 var rekstrarhagnaður íslenskra fyrirtækja tæplega 600 milljarðar hvort ár, en árið 2012 var hagnaðurinn kominn upp í 1.104 og hækkaði hann um 90,6% milli ára. Á sama tíma dróst tap af rekstri töluvert saman og nam 146 milljörðum. Árin 2008 og 2009 var rekstrartap 7.478 og 1.205 milljarðar, en það helgaðist helst af afskriftum viðskiptakrafna. Árin 2010 og 2011 var heildartap íslenskra fyrirtækja 468 og 232 milljarðar.
Það er því ljóst að töluverður viðsnúningur hefur orðið í rekstri íslenskra fyrirtækja, en nettóbreyting nemur 611 milljörðum króna milli ára og þrefaldast á tímabilinu.
Heildarhagnaður, eins og hann kemur fram í ársreikningi, hefur einnig aukist mikið milli ára, en þá er meðal annars tekið mið af sköttum, fjármagnsliðum og afskriftum. Heildarhagnaður ársins nam 1.804 milljörðum og hækkar úr 409 milljörðum árið áður. Má þessa miklu hækkun meðal annars rekja til betri afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga, aukins gengishagnaðar og vaxtatekna.
Ýmislegt forvitnilegt má lesa úr tölum þeim sem birtar eru í samantektinni, en hlutfall launakostnaðar af rekstrargjöldum fyrirtækja hefur t.a.m. farið hækkandi á undanförnum árum og nam árið 2012 20,8% og hækkaði úr 17% árið 2010. Meðaltal áranna 1997 til 2004 nam 22,5%, en þegar alþjóðleg fjármálaþjónusta stóð sem hæst hér var hlutfallið orðið nokkuð lægra og var kominn niður í 5,9% árið 2008.
Þá er bent á að frá árinu 2006 hafi íslensk fyrirtæki í heild tapað 21.434 milljörðum króna, en það eru u.þ.b. 187 milljarðar Bandaríkjadala. Það samsvarar landsframleiðslu í Kúvæt sem er í 51. sæti þjóða með hæstu landsframleiðsluna árið 2012. Þarna er vitaskuld að miklu leyti um að ræða tap vegna kaupa á verðbréfum fyrir erlent lánsfé sem féll í verði þegar alþjóðlega peningauppsprettan þvarr, segir í samantektinni. Síðan bankarnir féllu hefur tap fyrirtækja farið mikið minnkandi og var árið 2012 svipað og árið 2006.