Staðreyndin er sú að kröfur til þeirra sem stofna fyrirtæki eru ekki sérstaklega miklar. Þannig er væntanlega einhver hópur sem er trúað fyrir því að innheimta virðisaukaskatt og staðgreiðslu, en myndi ekki njóta venjulegrar fyrirgreiðslu hjá fjármálafyrirtæki. Þetta segir í leiðara Tíundar, tímarits Ríkisskattstjóra, sem Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri og Sigurður Jensson, sviðstjóri eftirlitssviðs, rita.
Segir í leiðaranum að töluvert hafi borið á svartri atvinnustarfsemi frá því að efnahagsþrengingarnar skullu á árið 2008, en bent er á að slík starfsemi skili sér ekki aðeins í minni skatttekjum fyrir ríkið, heldur geti það einnig leitt til þess að samkeppnisstaða skekkist verulega og að útgreiðslur úr bótakerfi almannatrygginga verði ofreiknað. Segir að þetta sé alvarleg meinsemd sem skattayfirvöld þurfi að vinna gegn.
Telja leiðarhöfundar að ástæða sé til þess að huga að ábyrgð forsvarsmanna rekstraraðila og meta hvort ástæða sé til að tengja ábyrgð þeirra sem rekstrinum stjórna við það fyrirkomulag sem þeir kjósa að hafa reksturinn í og að þeir taki þá afleiðingum af slíku. Bent er á að lögaðilar beri þá skyldu að halda eftir staðgreiðslu af launamönnum og innheimta virðisaukaskatt og því fylgi ábyrgð sem sé ekki nægjanlega rík í lögum.