Seðlabanki Bandaríkjanna telur að bandaríska hagkerfið sé að komast á ról á nýjan leik eftir erfiðan vetur. Peningastefnunefnd bankans ákvað að halda peningastefnu bankans óbreyttri á tveggja daga fundi hennar sem lauk í dag.
Janet Yellen, bankastjóri seðlabankans, sagði að hagkerfið væri komið á það gott ról að óhætt væri að draga úr stuðningi bankans við það. Ákveðið var að draga úr beinum skuldabréfakaupum bankans um tíu milljarða Bandaríkjadala í næsta mánuði.
Hún sagði þó að hagkerfið þyrfti enn á lágum vöxtum að halda. „Við gerum ráð fyrir fyrstu vaxtahækkuninni um mitt ár 2015,“ sagði Harm Bandholz, greinandi hjá Unicredit, í samtali við AFP.
Hann á von á því að bankinn haldi áfram að draga úr mánaðarlegum skuldabréfakaupum sínum - eins og Yellen gaf til kynna á blaðamannafundi í dag - og hætti alfarið að kaupa skuldabréf af bönkum og fjármálastofnunum í septembermánuði.
Ekkert í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar kom greinendum á óvart og hækkuðu bandarískar hlutabréfavísitölur örlítið þegar markaðir opnuðu í dag.