Gangi tillaga Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, eftir munu laun forstjóra Haga ekki vera umfram 3 milljónir og ráðningasamningar annarra stjórnenda teknir til endurskoðunar með svipuð mörk að leiðarljósi. Þetta kemur fram í frétt á vef Landsambandsins.
Í dag verður haldinn ársfundur Gildis lífeyrissjóðs og verður tillagan lögð fyrir fundinn. Verði hún samþykkt sem ályktun frá ársfundinum verður fulltrúa Gildis í stjórn Haga falið að bera tillöguna fram á næsta stjórnarfundi fyrirtækisins, en Gildi er stærsti hluthafi Haga með 10,32% eignarhlut.
Tillagan hljómar í heild svona:
„Stjórn Haga samþykkir að ráðningasamningur við forstjóra fyrirtækisins verði tekinn til endurskoðunar þannig að mánaðarleg laun, hlunnindi og árangurstengdar þóknanir fari ekki umfram 3,0 milljónir. Jafnframt verði ráðningasamningar annarra stjórnenda fyrirtækisins teknir til endurskoðunar þar sem sambærilegar greiðslur verði innan hóflegra marka.“
Í greinargerð með tillögunni er meðal annars vitnað í samskipta- og siðareglur félagsins, en þar kemur fram að sjóðurinn eigi að fjárfesta í samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum sem fylgja lögum og reglum samfélagsins og viðurkenndum viðmiðunum um góða stjórnarhætti og viðskiptasiðferði. Þá er þar tekið fram að sjóðurinn fjárfesti ekki í fyrirtækjum sem ofbjóða siðferðisvitund almennings með ósanngjarnri framkomu gagnvart starfsfólki s.s. varðandi kjör og stjórnunaraðferðir eða með óhófi í launamálum stjórnenda.