Tap Icelandair Group á fyrsta fjórðungi ársins nam 26,7 milljónum Bandaríkjadala, sem jafngildir um þremur milljörðum króna, samanborið við 18,3 milljóna Bandaríkjadala tap á sama tímabili í fyrra.
EBITDA félagsins var neikvæð um 13,3 milljónir Bandaríkjadala samanborið við 8,3 milljónir Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi 2013.
Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að kostnaður vegna aukins umfangs á háannatíma sem að miklu leyti gjaldfærist á fyrsta ársfjórðungi skýri lækkun á EBITDA á milli ára.
Þá jukust heildartekjur um 11% og var eiginfjárhlutfall 32% í lok mars.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir að afkoman sé í takt við væntingar stjórnenda. Áætlanir ársins hafi gert ráð fyrir neikvæðri afkomu á fjórðunginum og að hún yrði jafnframt lakari en var á sama tímabili á síðasta ári.
„Heildartekjur námu 191,3 milljónum USD á fjórðungnum og jukust um 11% á milli ára. Aukning farþegatekna í millilandaflugi varð mest á N-Atlantshafsmarkaðinum, en töluverð aukning varð einnig á ferðamannamarkaðinum til Íslands. Leiguflugs- og fraktstarfsemi félagsins gekk vel og jókst arðsemi þessarar starfsemi á milli ára. Rekstur annarra dótturfélaga samstæðunnar gekk einnig vel og var í takt við áætlanir,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.
Hann segir að horfur í rekstri félagsins fyrir árið 2014 séu góðar. Gert sé ráð fyrir metfjölda ferðamanna til Íslands á árinu sem muni hafa jákvæð áhrif á alla ferðaþjónustu á Íslandi.
„Félagið stendur þó frammi fyrir nokkurri óvissu þar sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur boðað til ótímabundins yfirvinnubanns og verkfalls í maí mánuði. Einnig er ósamið við flugfreyjur og flugvirkja. Það er von stjórnenda Icelandair Group að samningar við þessar þrjár stéttir takist fljótlega svo ekki komi til röskunar á starfsemi félagsins.
Afkomuspá félagsins stendur óbreytt og er gert ráð fyrir að EBITDA á árinu 2014 muni nema 145-150 milljónum USD,“ segir Björgólfur.