Arion banki hefur ákveðið að bíða með að gefa út skuldabréf í evrum eftir að í ljós kom að kjörin sem bankanum bauðst voru ekki eins hagstæð og vonast hafði verið til.
Ekki hefur verið hætt við skuldabréfaútgáfuna, heldur mun bankinn bíða og sjá hvernig aðstæður þróast á erlendum mörkuðum.
Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, segir að viðtökur fjárfesta hafi verið góðar, eftirspurnin mikil en kjörin ekki eins hagstæð og bundnar höfðu verið vonir við.
„Aðstæður á markaði eru ekki alveg jafn hagfelldar og við höfðum vonast eftir og því ætlum við að bíða, fylgjast með markaðinum og sjá til,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Bankinn tilkynnti um miðjan aprílmánuð að hann hefði samið við bankana Citi, Deutsche Bank og Nomura um skipulagningu funda með evrópskum fjárfestum. Fundirnir fóru fram í seinni hluta mánaðarins og gengu vel. Bankinn stefndi í kjölfarið að skuldabréfaútgáfu í evrum, að því gefnu að kjör og markaðsaðstæður yrðu viðunandi.
Haraldur Guðni segir að fundaröðin með fjárfestunum hafi gengið mjög vel og ljóst sé að næg eftirspurn sé til staðar. Hins vegar liggi bankanum ekki á að gefa út skuldabréf í erlendum myntum. „Bankinn er fullfjármagnaður og er engin endurfjármögnunarþörf til staðar,“ bendir hann á.
Fjárfestafundirnir voru rökrétt framhald á þeirri vinnu sem fram hefur farið undanfarin ár við að auka fjölbreytni í fjármögnun bankans og opna aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum.
Í febrúarmánuði árið 2013 lauk bankinn skuldabréfaútboði í norskum krónum með milligöngu Pareto Öhman. Þá voru alls seld skuldabréf til um sextíu fjárfesta í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi, meginlandi Evrópu og Asíu fyrir 500 milljónir norskra króna eða um 11,2 milljarða íslenskra króna á þeim tíma.
Skuldabréfin bera fljótandi vexti, 5,00% ofan á NIBOR, og voru til þriggja ára, með lokagjalddaga árið 2016.
Var bankinn þar með fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að sækja sér erlenda fjármögnun frá árinu 2007.
Bankinn hefur einnig fengið lánshæfismatið BB+ frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu Standard & Poor's.
Íslandsbanki greindi jafnframt frá því í gær að Standard & Poor's hefði gefið honum einkunnina BB+ með stöðugum horfum. Bankinn lauk einnig sínu fyrsta erlenda skuldabréfaútboði í desember síðastliðnum. Útgáfan var í sænskum krónum en alls voru seld bréf til yfir fjörutíu fjárfesta fyrir 500 milljónir sænskra króna, eða sem nam á þeim tíma 9,1 milljarði íslenskra króna.
Skuldabréfin bera 400 punkta ofan á sænska millibankavexti (STIBOR) og eru til fjögurra ára.