Spá 3,3% hagvexti á næsta ári

Greining Íslandsbanka spáir 3,3% hagvexti á næsta ári.
Greining Íslandsbanka spáir 3,3% hagvexti á næsta ári. mbl.is/Rósa Braga

Greining Íslandsbanka spáir 3,3% hagvexti á næsta ári sem þýðir að vöxturinn verður áfram yfir langtímahagvexti. Gangi spáin eftir verður landsframleiðslan á næsta ári - árið 2015 - á föstu verði komin yfir það sem hún var árið 2008.

Að teknu tilliti til fólksfjölgunar mun landsframleiðslan á mann árið 2016 vera viðlíka því sem hún fór hvað hæst fyrir hrun bankanna haustið 2008.

Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka fyrir næstu tvö ár.

Samkvæmt spánni mun hagvöxturinn á næsta ári verða, líkt og hagvöxtur þessa árs, byggður á nokkuð breiðum grundvelli. Greining Íslandsbanka spáir nokkuð hröðum vexti einkaneyslu, þó að hann verði aðeins hægari en á þessu ári.

Þá er reiknað með að vöxturinn í fjárfestingum verði öllu meiri á næsta ári en hann hefur verið og þá sér í lagi í fjárfestingum atvinnuveganna. Aukinheldur reiknar greiningardeildin með nokkuð kröftugum vexti í útflutningi á vöru og þjónustu, en áfram er hins vegar gert ráð fyrir meiri vexti í innflutningi. Því verður framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar áfram neikvætt. 

Dregur úr hagvexti árið 2016

Aðeins mun draga úr hagvexti þegar kemur fram á árið 2016, að mati greiningardeildarinnar, en þess ber að geta að óvissan í hagvaxtarspám - þegar horft er svona langt fram í tímann - er mikil. Spáir deildin 2,4% hagvexti það árið, en minni vöxtur í fjárfestingum og útflutningi skýrir samdráttinn að mestu. 

Greining Íslandsbanka telur að nokkrir kraftar muni toga gengi krónunnar í ólíkar áttir á næstu misserum. Fyrst megi nefna að eðlilegt sé að raungengi krónunnar hækki samhliða því að slakinn hverfi úr hagkerfinu, líkt og allt bendir til.

Á móti vegi sá greiðslujafnaðarvandi sem blasir við þegar borin er saman spá um undirliggjandi viðskiptajöfnuð á spátímabilinu og það vænta fjármagnsútflæði sem verður á tímabilinu vegna afborgana innlendra aðila af erlendum lánum.

Safnar áfram í sarpinn

„Í ljósi þessa vanda og þess að verðbólgan er við verðbólgumarkmiðið er ólíklegt að Seðlabankinn vilji sjá nafngengi krónunnar hækka í bráð að minnsta kosti. Þó að bankinn geti ekki haft áhrif á raungengisþróunina til lengri tíma getur hann haft nokkuð um hana að segja til skemmri og miðlungslangs tíma,“ segir í þjóðhagsspánni.

Mun bankinn því líklega vilja nýta það misvægi í gjaldeyrisstraumum til og frá landinu sem annars myndi hafa styrkt krónuna til að efla óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð sinn á næstunni.

Ofangreindir kraftar á gjaldeyrismarkaði munu líklegast vega hvorn annan upp og telur greiningardeildin því að krónan haldist nálægt því gildi sem hún er í nú út spátímabilið.

Verðbólgan áfram undir verðbólgumarkmiði SÍ

Samkvæmt spá greiningardeildarinnar mun verðbólgan haldast undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, sem hljóðar upp á 2,5% verðbólgu, stóran hluta ársins. Síðan muni hún aftur á móti taka að aukast nokkuð á næsta ári, samhliða aukinnar spennu í hagkerfinu.

Verðbólgan ætti hins vegar að vera nokkuð undir hækkun launa að jafnaði og þess vegna mun kaupmáttur launa halda áfram að aukast. Að sama skapi ætti verðbólgan að vera undir verðhækkun húsnæðis, þannig að raunverð íbúðarhúsnæðis mun halda áfram að hækka.

Greining Íslandsbanka býst við því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki stýrivexti bankans fyrir mitt ár um 0,25 prósentustig. Hins vegar gerir deildin ráð fyrir þvi´að nefndin ákveði að hækka vextina í þrígang á næsta ári um 0,75 prósentustig. Verði það að veruleika verða stýrivextir bankans þá komnir upp í 6,5% í árslok 2015.

Kröftugur vöxtur í einkaneyslu

Greiningardeildin telur að útlit sé fyrir að vöxtur í einkaneyslu hafi verið mun kröftugri nú í byrjun árs en undanfarin tvö ár. Benda ýmsar hagtölur til þess. Spáð er áframhaldandi vexti eða alls um 4,2% í ár, 3,4% á því næsta og 3,7% árið 2016.

Hlutfall fjárfestingar af vergri landsframleiðslu hefur verið býsna lágt síðustu ár, hvort sem er í sögulega eða alþjóðlegu tilliti. „Hlutfallið var tæp 14% í fyrra, en til samanburðar hefur fjárfestingarhlutfall innan OECD-ríkja að jafnaði verið 20% undanfarinn áratug,“ segir Greining Íslandsbanka.

Gerir hún ráð fyrir að hlutfall fjárfestingar af VLF hækki jafnt og þétt á næstu tveimur árum og verði tæp 17% árið 2016.

Fjárfesting atvinnuveganna mun hins vegar, að mati greiningardeildarinnar, taka nokkuð myndarlega við sér á spátímanum og aukast um 9,7% á þessu ári en 20,3% á því næsta. Íbúðafjárfesting mun einnig aukast, enda hefur íbúaðverð hækkað mun hraðar en byggingarkostnaður og eftirspurn á íbúðamarkaði verið stigvaxandi.

Þá er vert að hafa í huga að aukinn kaupmáttur og betri eignastaða heimila ýtir einnig undir íbúðafjárfestingar.

Vöxtur í þjónustuútflutningi engu líkur

„Mikill vöxtur í þjónustuútflutningi ásamt áframhaldandi vexti í útflutningi sjávarafurða verða helstu stoðir þess vaxtar í útflutningi sem við spáum á komandi misserum,“ segir í þjóðhagsspánni.

Stóraukinn útflutningur þjónustu var einn helsti drifkraftur hagvaxtar á liðnu ári og er gert ráð fyrir að hann muni halda áfram að vaxa myndarlega. Bendir greiningardeildin á að hagvöxtur hefði verið heldur rýr ef ekki hefði komið til mikil fjölgun ferðamanna og stóraukin umsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu og samgöngum.

Myndin er hins vegar blendnari hvað vöruútflutning varðar. Áfram mun verða vöxtur í útflutningi sjávarafurða út spátímabilið, samkvæmt spánni, en hann verður þó hægari í ár, ekki síst vegna lélegrar loðnuvertíðar.

Gert er aftur á móti ráð fyrir því að álútflutningur dragist saman um 2,4% í ár frá fyrra ári vegna rafmagnsskömtunar til álveranna en vatnsbúskapur hefur verið afar lélegur á árinu.

„Hvað annan vöruútflutning varðar teljum við að þau iðjuver sem reisa á næstu misserin verði ekki farin að skila útflutningsafurðum svo neinu nemi á spátímanum,“ segir greiningardeildin.

Afangur af viðskiptajöfnuði minnkar

Að lokum áætlar Greining Íslandsbanka að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði muni reynast 6,0% af VLF í ár, en minnka á næstu árum. Það kemur til vegna allhraðs vaxtar innflutnings, sem mun reynast umfram vöxt útflutnings á næstu tveimur árum.

Samhliða því að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði minnkar dregur úr afgangi af viðskiptajöfnuði. Hins vegar gerir greiningardeildin ráð fyrir því að afgangur verði af undirliggjandi viðskiptajöfnuði, þ.e. þegar leiðrétt hefur verið fyrir uppgjöri gömlu bankanna, út spátímabilið.

Hlutfall fjárfestingar af vergri landsframleiðslu hefur verið býsna lágt síðustu …
Hlutfall fjárfestingar af vergri landsframleiðslu hefur verið býsna lágt síðustu ár. mbl.is/Ómar Óskarsson
Hagvöxtur í fyrra hefði verið rýr ef ekki hefði komið …
Hagvöxtur í fyrra hefði verið rýr ef ekki hefði komið til mikil fjölgun ferðamanna. mbl.is/Ómar Óskarsson
Vöxtur í einkaneyslu hefur verið kröftugur það sem af er …
Vöxtur í einkaneyslu hefur verið kröftugur það sem af er ári. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Spáð er því að verðbólgan muni aukast á næstu ári …
Spáð er því að verðbólgan muni aukast á næstu ári og verði 3,1% árið 2016. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK