„Og segið já!“

„Það eru góðir sölumenn hérna í salnum en engir eins góðir og ég,“ sagði Jordan Belfort, úlfurinn á Wallstreet, við gesti söluráðstefnu sinnar í Háskólabíói í dag. Hann uppskar hlátur meðal viðstaddra og gerði það ítrekað meðan á fyrirlestrinum stóð.

Það er ekkert skrítið. Belfort er meistari í því að hrífa fólk með sér. Það tókst honum á sínum tíma er hann byggði viðskiptaveldi frá grunni. Það varð honum líka að falli. Hann sveik milljónir dala af viðskiptavinum sínum og var að lokum dæmdur í fangelsi. En nú segist hann hafa snúið við blaðinu og undanfarin ár hefur hann ferðast um heiminn og kennt sölutækni sína. Í þetta sinn er hún byggð á heiðarleika og siðareglum. Það ítrekaði Belfort margoft á fyrirlestri sínum í dag. 

„Hrunið á Íslandi er ekki mér að kenna“

Hann fjallaði líka sérstaklega um stöðuna efnahagsmálum á Íslandi. Hann sagði að sér hefði verið kennt um ýmislegt í gegnum tíðina „en hrunið á Íslandi er ekki mér að kenna“. Hvatti hann áheyrendur til að láta ekki „tuttugu menn sem rústuðu bönkunum“ brjóta sig niður. Til að undirstrika þetta lét hann alla standa upp og endurtaka það sem hann sagði: „Þetta er ekki mér að kenna,“ og viðstaddir endurtóku í einum kór. „Ég ætla mér að ná árangri,“ sagði Belfort og salurinn bergmálaði setninguna. „Með heiðarleika og siðareglur að leiðarljósi,“ bætti hann svo við. Þá fóru nokkrir að hlæja, þekkjandi fortíð hans.

Hann sagði Íslendinga fáa en að þeir hugsuðu eins og 30 milljóna manna þjóð. Þannig hafi þeir hagað sér fyrir hrun og ættu að halda áfram. „Þið hafið lært að græðgi er ekki góð en metnaður er það.“

Belfort sagði tvennt hægt að gera eftir þá stöðu sem kom upp eftir hrun. Leyfa sér að líða illa og taka langan tíma í að jafna sig, eða hreinlega að láta sér líða vel strax - byrja aftur. Þegar í stað. 

Belfort gekk öruggur um sviðið í Háskólabíói. Hann hefur gert þetta ótal sinnum - veit hvað hann er að gera. Efsti hnappurinn á skyrtunni var hnepptur frá. Fljótlega fór hann úr jakkanum og bretti upp ermarnar. Það var tími til kominn að hefjast handa. „Ég elska að tala,“ sagði hann. „Sumir eru hræddir við að tala opinberlega, ég er hræddur við að gera það ekki.“

Klappstýran Belfort

Frá fyrstu mínútu virtist hann hafa áhorfendur á sínu bandi. Lét þá standa upp, klappa, fara með setningar, líkt og um trúarsamkomu væri að ræða. Og vissulega er boðskapur Belforts ákveðin trúarbrögð. Hann snýst um það að hafa trú á eigin getu, láta ekki röddina í höfðinu draga sig niður. Eða annað fólk. „Svona gerum við þetta í Bandaríkjunum,“ sagði hann þegar hann hafði látið salinn hrópa hátt og snjallt „já!“ margsinnis. Því „já“ er lykilorðið. „Ég get breytt heiminum,“ bað hann áhorfendur að endurtaka. Sem þeir gerðu fúslega. Hátt og snjallt.

Fyrir þá sem hafa aldrei komið á samkomu sem þessa, þar sem verið er að kenna sölutækni, að hvetja fólk til að vera ákveðið, óhrætt og öruggt, lítur þetta nokkuð sérkennilega út. Það skal viðurkennast. En sölumenn sem rætt var við í hléi voru þó ánægðir, sögðust reyndar hafa heyrt margt af þessu áður en engu að síður væri þetta góð áminning og mjög hvetjandi. Þá er markmiði Jordans Belforts náð.

Edrú í sautján ár

Belfort sagði margar sögur á sviðinu, aðallega af sjálfum sér. Það leiddist honum augljóslega ekki.

Hann rifjaði upp fíkniefnanotkun sína en sagðist hafa verið edrú í 17 ár. Fyrir það uppskar hann lófaklapp.

Hann sagðist líka alltaf hafa viljað verða ríkur. Hann sagði móður sína hafa reynt að sannfæra sig um að verða læknir. Hann hafi svo að lokum skráð sig í tannlæknanám. Á fyrsta degi tók kennari á móti nýnemunum, bauð þá velkomna og sagði þeim að gullöld tannlækninga væri liðin. Þeir yrðu ekki ríkir á því að verða tannlæknar. „Ég hugsaði: Hvað í andskotanum er að ég að gera hér?“ rifjaði Belfort upp. Þar með lauk tannlæknanáminu.

Belfort sagði tvenns konar tegundir af fólki. „Ástæðufólk“ og „árangursfólk“. Ástæðufólkið fyndi sér stöðugt ástæður til að gera ekkert, tala sig niður, láta ekki verða að neinu. Árangursfólkið væri það sem léti hlutina gerast. Hann sagði ástæðufólkið eins og endur, það kvakaði í sífellu. Þetta lék hann með tilþrifum á sviðinu. Árangursfólkið væri hins vegar eins og ernir. Og hvort vill fólk vera: Önd eða örn?

Og eftir þá ræðu var sannarlega tilefni til að láta salinn endurtaka lykilsetningar á borð við: „Ég er manneskja sem tekur ákvarðanir.“ Þetta hreinlega hrópuðu sumir í salnum. Augljóslega innilega sammála. „Ég ætla að verða viðurstyggilega ríkur,“ sagði Belfort. Og áhorfendur endurtóku samviskusamlega. „En ekki gráðugur.“

Sæt en hélt hún væri ljót

Hann tók dæmisögu um hversu mikilvægt væri að einblína á staðreyndir - ekki trúa einhverju í blindni. Rifjaði hann upp sögu af stúlku sem hafði ávallt verið með mjög stórt nef og fundist hún ljót. Svo hafi hún farið í nefaðgerð en samt sem áður fundist hún ljót. „En það var ekki rétt, það var bara það sem hún hélt. Skiljiði hvað ég meina?“ Jú, áhorfendur sögðust skilja það. 

Belfort sagði mikilvægt að hafa sterka sýn. Hafa sýn á það sem maður vill og hvernig maður ætli að ná þangað. Til að undirstrika þetta bað hann alla að standa upp, loka augunum, kreista hnefana og sjá fyrir sér takmarkið. „Og segið já!“ Það stór ekki á svörum. 

Já. úlfurinn á Wallstreet kann að hrífa fólk með sér. Sölufólk að minnsta kosti. 

Jordan Belfort á söluráðstefnu sinni í Háskólabíói í dag.
Jordan Belfort á söluráðstefnu sinni í Háskólabíói í dag. mbl.is/Eggert
Jordan Belfort í Háskólabíói í dag.
Jordan Belfort í Háskólabíói í dag. mbl.is/Eggert
Jordan Belfort er þekktur sem úlfurinn á Wallstreet.
Jordan Belfort er þekktur sem úlfurinn á Wallstreet. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK