Landsbankinn hf. og slitastjórn LBI hf. hafa komist að samkomulagi um breytingar á uppgjörsskuldabréfum sem samið var um í desember 2009, en eftirstöðvar þeirra eru nú að jafnvirði um 226 milljarðar króna. Af hálfu slitastjórnar LBI hf. er gerður fyrirvari um að tilteknar undanþágur fáist í samræmi við lög um gjaldeyrismál.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.
Fram kemur, að lokagreiðsla verði innt af hendi í október 2026 í stað október 2018. Endurgreiðslur verði á tveggja ára fresti og dreifist nokkuð jafnt. Landsbankinn hafi heimild til að greiða skuldina að hluta eða að fullu upp án kostnaðar, hvenær sem er á tímabilinu.
Þá segir, að vaxtakjör verði óbreytt til október árið 2018, þ.e. 2,9% álag ofan á LIBOR vexti. Eftir það fari vaxtaálagið stighækkandi og verði 3,5% vegna gjalddaga 2020 og að lokum 4,05% vegna lokagjalddagans árið 2026. Hver gjalddagi á tímabilinu frá 2020 til 2026 sé að jafnvirði um 30 milljarða íslenskra króna.
„Skilmálarnir eru mjög vel viðráðanlegir fyrir Landsbankann og mun þessi breyting auðvelda honum alþjóðlega lánsfjármögnun. Þá felur samkomulagið í sér að sérstökum hömlum á arðgreiðslur hefur verið hrundið úr vegi, til hagsbóta fyrir hluthafa bankans. Samkomulagið er jafnframt mikilvægur þáttur í að leysa úr þeim stóru viðfangsefnum sem tengjast skuldastöðu þjóðarbúsins og afnámi gjaldeyrishafta. Við teljum þennan áfanga því mjög mikilvægan fyrir íslenskt efnahagslíf sem og Landsbankann,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, í tilkynningunni.