Hlutabréf í Icelandair Group hafa lækkað um 2,33% í verði í um 195 milljóna króna viðskiptum það sem af er degi. Gengi bréfanna stóð í 17,2 krónum á hvern hlut í lok föstudags en standa nú í 16,8 krónum á hlut.
Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar í gær kom fram að verkfall, yfirvinnubann og aðrar aðgerðir flugmanna hefðu leitt til þess að aflýsa þyrfti fleiri flugum en gert var ráð fyrir. „Haldi aðgerðirnar áfram munu þær því hafa verri áhrif á afkomu Icelandair Group en tilkynnt var um í tilkynningu hinn 6. maí,“ segir í tilkynningunni, en þá var talið að tap félagsins af verkfallinu gæti numið 1,5 til 1,7 milljörðum króna.