Verð á meðalíbúð miðsvæðis í Reykjavík kostar ekki nema rúmlega 20% af því sem svipuð íbúð kostar í London. Verð íbúða í Reykjavík er það þriðja lægsta í könnun sem danska blaðið Politiken gerði, en aðeins í Lissabon og Aþenu er ódýrara að kaupa sér íbúð í miðbænum. París og Róm raða sér í efstu sætin ásamt London.
Í London má gera ráð fyrir að 80 fermetra íbúð miðsvæðis kosti um 124 milljónir, en í París er svipuð íbúð á tæplega 122 milljónir. Róm er í þriðja sæti, en þar kostar 80 fermetra íbúð um 110 milljónir.
Stokkhólmur er dýrasta borgin á Norðurlöndunum til að fjárfesta í íbúð, en þar kostar hún 89 milljónir. Ósló kemur þar á eftir en miðlungsstór íbúð miðsvæðis þar kostar 79 milljónir. Nokkru neðar er Helsinki með 72 milljóna verðmiða og sama íbúð kostar um 46 milljónir.
Samkvæmt könnun Politiken kostar íbúð í þessum flokki um 27,6 milljónir miðsvæðis í Reykjavík, en aðeins Lissabon, með 26,6 milljóna verðmiða og Aþena, sem stendur í um 20 milljónum, eru þar fyrir neðan.
Tekið skal fram að hér er ekki tekið mið af kaupmætti launa, en flest þeirra landa sem eru ofar Íslandi búa við meiri kaupmátt.