Greiningardeild Arion banka spáir því að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi sínum 21. maí næstkomandi. Í greiningu bankans kemur fram að verðbólguspá bankans fyrir yfirstandandi ár muni lækka, en hún var 2,7% við síðustu útgáfu Peningamála, en að áfram verði spáð hækkandi verðbólgu á næsta ári.
Peningastefnunefndin mun byggja ákvörðun sína á verðbólguhorfum fram á við og telur greiningardeildin litlar líkur á að verðbólguspáin lækki það mikið að færa megi rök fyrir stýrivaxtalækkun. Einnig hefur komið skýrt fram að nefndin hefur áhyggjur af því að verðbólguvæntingar til lengri tíma reynast tregbreytanlegar og hafa færst hægt niður á við.
Nokkrar breytingar hafa orðið á vinnumarkaði þar sem útlit er fyrir launahækkanir einstakra stétta nokkuð umfram kjarasamninga SA og ASÍ og dregur það úr líkum á langtíma kjarasamningum með hóflegum launahækkunum í byrjun næsta árs, segir í greiningunni.