Viðskiptajöfnuður gæti stórversnað

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu leiðréttinguna á blaðamannafundi í Iðnó. mbl.is/Golli

Viðskiptajöfnuður landsins gæti að öllu óbreyttu versnað sem nemur um 125 milljörðum króna á næstu fjórum árum, þ.e. árunum 2014 til 2018, vegna aukins innflutnings í kjölfar aðgerða ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.

Össur spurði um áhrif húsnæðisskuldalækkana á viðskiptaafgang og hver áhrif þeirra séu á getu Íslands til að standa við erlendar greiðsluskuldbindingar á næstu fimm árum.

Í svarinu segir að aðgerðir sem örva einkaneyslu hafi neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð að öðru óbreyttu, en aðgerðir til lækkunar verðtryggðra skulda heimilanna hafi jákvæð auðsáhrif á heimili og lækka greiðslubyrði.

„Bætt staða heimilanna örvar þjóðarútgjöld á grundvelli aukinnar einkaneyslu. Líkur eru aftur á móti á því að landsframleiðslan aukist minna vegna þess hve stór hluti þjóðarútgjaldanna leiðir til aukins innflutnings sem að öðru óbreyttu leiðir til minni viðskiptaafgangs,“ segir í svarinu.

Fjármál hins opinbera verði rekin af ábyrgð

Áhrif aðgerðanna séu ákveðinni óvissu háð, en séreignarsparnaðarleiðin vegi á móti áhrifum lækkunar höfuðstóls verðtryggðra lána þar sem hún hvetji til aukins sparnaðar heimila.

„Stjórnvöld geta auk þess gripið til hagstjórnarlegra áhrifa til þess að draga úr neikvæðum áhrifum aðgerðanna á getu Íslands til þess að standa við erlendar greiðsluskuldbindingar sínar. Við aðstæður sem þessar skiptir ekki síst máli að fjármál hins opinbera séu rekin af ábyrgð, en styrk stjórn opinberra fjármála ýtir undir þjóðhagslegan sparnað.

Þannig verði þjóðhagsleg áhrif aðgerða til lækkunar skulda heimilanna jákvæðari og birtist aðeins að litlu leyti í neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins,“ segir enn fremur í svarinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK