Á komandi árum mun raforkumarkaðurinn hér á landi breytast úr neytendamarkaði yfir í seljendamarkað þar sem hægt verður að fá hærra verð fyrir raforku en í dag. Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, en á ársfundi fyrirtækisins í dag fór hann yfir stöðu og framtíðarsýn í raforkuframleiðslu. Sagði Hörður að ekkert valdi jafn mikilli spennu í heiminum og þegar þjóðir telji að orkuöryggi þeirra sé ógnað. Þannig sjái Bretar t.d. fram á að klára jarðefnaeldsneyti sitt á komandi árum og því horfi þeir nú í örvæntingu til endurnýjanlegra orkugjafa.
Vegna þessa hafi Bretar sýnt mikinn áhuga á að leggja streng hingað til lands með kaup á raforku í huga, en hann sagði það mjög jákvætt í sjálfu sér, enda hafi Landsvirkjun eytt miklum tíma í að vekja áhuga á landinu síðustu ár meðal ýmissa iðngreina, en slíkt taki langan tíma, en nú sé vænlegur kaupandi búinn að gefa sig fram af fyrra bragði.
Hörður segir að eftir því sem eftirspurn eftir orku aukist í heiminum muni fleiri fyrirtæki horfa hingað til lands, meðal annars vegna afhendingaröryggis og stýranleika orkunnar. Það að orkan sé endurnýjanleg hjálpi til, en sé í sjálfu sér aukaatriði.
Með aukinni eftirspurn sagði Hörður að Landsvirkjun kæmist væntanlega í þá stöðu fljótlega að geta ekki afhent alla þó orku sem óskað er eftir, enda sé framboðið ekki endalaust. Fór hann yfir stöðu Íslands samanborið við nágrannalönd okkar og sagði að þar sem seinna hefði verið byrjað að virkja hér á landi yrði minna virkjað í heild, enda sé náttúruvernd og vitundarvakning í þeim málaflokki sýnilegri en áður. Þó segir hann að enn sé hægt að tvöfalda orkuframleiðslu hér á landi innan þeirrar rammaáætlunar sem sé í gildi og því sé ekki um það að ræða að hér sé enga orku meira að fá. Hörður tók þó fram að þetta þýddi alls ekki að hann væri að tala með því að virkja allt vatn sem hreyfðist, enda væri tæknilega hægt að margfalda virkjanlega orku á Íslandi, en fáir töluðu með slíku.