Á komandi misserum verður farið í vinnu við að greina möguleika tengdum áliðnaði fyrir nýsköpun. Þetta segir Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, en í dag var undirrituð viljayfirlýsing um rannsóknarsetur í áliðnaði. Segir hún að ætlunin sé að byggja upp áliðnaðinn sem fyrir er í landinu og nýta þekkingu sem hefur verið aflað hjá þeim sem þjónusta iðnaðinn.
Rannveig segir að álverin þurfi að koma að þessu verkefni með að beina kröftum sínum í að hjálpa innlendum aðilum að þróa sinn búnað og gera tilraunir og hleypa svo erlendum aðilum að til að kynna vöruna.
Meðal þess sem Rannveig telur að hægt sé að þróa betur hér á landi eru allskonar mælitæki og viktanir á áli og þá sér hún tækifæri í endurnýtingu á úrgangsefnum frá álframleiðslu. „Það eru ýmsir möguleikar og þurfa ekki alltaf að vera í stórum stíl til að geta skilað árangri.“