Hagnaður Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 2,9 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 1,4 milljarða króna á sama tímabili 2013. Arðsemi eigin fjár var 7,8% samanborið við 4,3% á sama tímabili árið 2013 og arðsemi af kjarnastarfsemi 5,9%, en hún var 7,6% á sama tímabili í fyrra.
Heildareignir námu 933,1 milljarði króna samanborið við 938,9 milljarða króna í árslok 2013, að því er segir í tilkynningu frá bankanum. Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 2,6% en var 3,1% á fyrstu þremur mánuðum 2013.
Þá var kostnaðarhlutfall 69,0% en var 72,6% á sama tímabili 2013. Kostnaðarhlutfall af kjarnastarfsemi nam 66,8% samanborið við 66,7% á sama tímabili í fyrra.
Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 22,5% en var 23,6% í lok árs 2013.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir að afkoma bankans sé viðunandi. Hagnaðurinn hafi aukist nokkuð samanborið við fyrsta ársfjórðung síðasta árs, þrátt fyrir aukna skattbyrði, og sé arðsemi eiginfjár 7,8%.
„Þrátt fyrir það lækka tekjur bankans og þá fyrst og fremst vegna lægri vaxtamunar þar sem verðbólga er lægri á tímabilinu en fyrir ári síðan. Að auki hafa markaðsaðstæður verið með þeim hætti að virði eigna bankans í verðbréfum og gjaldeyri lækkar á tímabilinu.
Við erum þó ánægð með að þóknanatekjur hækka frá því sem var á sama tímabili fyrir ári en markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum misserum að styrkja grundvöll þóknanatekna bankans. Hækkunina má fyrst og fremst rekja til eignastýringar og kortaviðskipta. Einnig hefur á undanförnu ári náðst góður árangur hvað rekstrarkostnað bankans varðar en hann lækkar á milli tímabila og starfsfólki bankans fækkar,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.