Hagnaður Íslandsbanka nam 8,3 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við 4,6 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.
Í fréttatilkynningu kemur fram að munurinn á milli ára liggur að stærstum hluta í hagnaði vegna sölu eignarhluta í aflagðri starfsemi.
Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 19,3% en var 12,2% í fyrra. Eiginfjárhlutfall heldur áfram að styrkjast, var 30,3% (2013: 28,4%) og eiginfjárhlutfall A (Tier 1) 27,0% (2013: 25,1%), sem skýrist að hluta af 2% lækkun áhættugrunns (RWA) á fyrsta fjórðungi í 644 ma. kr. (2013: 660 ma.kr.).
Hreinar vaxtatekjur voru 6,6 milljarðar króna samanborið við 7,5 milljarða króna í fyrra. Þetta er lækkun um 11,1% milli ára.
Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði í 55,1%, úr 67,1%, og má rekja lækkunina til fækkunar starfsmanna og áframhaldandi kostnaðaraðhalds.
Frá stofnun bankans hafa um 35.900 einstaklingar og um 4.160 fyrirtæki fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum sem nema 555 milljörðum króna. Öllum stórum málum sem lúta að fjárhagslegri endurskipulagningu hefur nú verið lokið, samkvæmt fréttatilkynningu.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka segir í fréttatilkynningu: „Við erum ánægð með afkomu fyrsta ársfjórðungs þar sem við sjáum aukna arðsemi, hækkun þóknanatekna og áframhaldandi lækkun kostnaðar milli ára. Svo virðist sem markaðurinn hafi tekið við sér sem endurspeglast í aukinni eftirspurn eftir útlánum sem hafa vaxið um 2% frá áramótum. Grunnrekstur bankans styrkist og 16% aukning var á þóknanatekjum á milli ára. Hagræðingarverkefni hafa gengið vel, við höfum haldið áfram að hagræða í útibúaneti bankans og nýverið var tilkynnt um sameiningu tveggja útibúa og breytingu á afgreiðslu bankans í Kringlunni í sjálfsafgreiðslu. Raunlækkun á stjórnunarkostnaði var 7,4% á milli ára og kostnaðarhlutfallið var 55,1% sem er í takt við langtímaáætlanir bankans.
Eftir lok fyrsta ársfjórðungs gaf Íslandsbanki út skuldabréf í evrum að upphæð 100 milljónir evra (15,6 ma. kr.), sem er fyrsta evru útgáfa hjá íslenskum banka og markar tímamót fyrir bankann og íslenskt fjármálakerfi. Nú sér til lands hvað varðar leiðréttingu húsnæðislána að hálfu stjórnvalda. Starfsfólk bankans hefur unnið að því að undirbúa það verkefni og hvetjum við alla viðskiptavini okkar til að sækja um leiðréttinguna og að nýta sér skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar,“ segir Birna í fréttatilkynningu.