Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, telur rétt að byrja sölu á hlutabréfum ríkisins í Landsbankanum strax á næsta ári. Á landsfundi Landsvirkjunar í vikunni ræddi Bjarni um sölu á einhverjum hlut ríkisins í fyrirtækinu, en hann telur einnig rétt að horft sé til Landsbankans og hinna bankanna á komandi misserum.
Segir hann að augljósi kosturinn við núverandi aðstæður sé sala á hlut ríkisins í Landsbankanum, en Bjarni telur að það geti bætt stöðu ríkissjóðs töluvert og lækkað skuldir hans. Bendir hann á að ríkið hafi tekið á sig á annað hundruð milljarða lán vegna endurreisnar Landsbankans. „Við eigum að stefna að því að endurheimta þá fjárfestingu við sölu,“ segir Bjarni.
Opin heimild frá Alþingi er fyrir sölu á 30% hlut í bankanum og segist hann vilja virkja þá heimild á næstu tveimur árum. Aðspurður hvenær hann sjái fyrir sér að hafist verði handa við söluna segir hann að hægt verði að byrja strax á næsta ári. „Ef aðstæður eru réttar væri ákjósanlegt að byrja á að létta á eignahlut ríkisins í Landsbankanum strax á næsta ári,“ segir Bjarni. Í framhaldi af þeirri sölu segir Bjarni að rétt sé að horfa til sölu á hlut ríkisins í hinum bönkunum tveimur.