Framlög ríkisins til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknarsjóðs munu aukast um 2,8 milljarða á næstu tveimur árum samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um sókn á sviði nýsköpunar og vísinda. Á næsta ári verður 800 milljónum bætt við framlag til sjóðanna og árið 2016 er gert ráð fyrir að setja allt að tvo milljarða aukalega í sjóðina. Þetta kemur fram í nýrri aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs sem kynnt var í gær.
Tækniþróunarsjóður er í ár með 987 milljónir á fjárlögum. Gert er ráð fyrir að auka framlag til hans um 390 milljónir á næsta ári, en með því verður heildarframlag í hann um tæplega 1.400 milljónir. Sjóðurinn veitir styrki til einstaklinga og fyrirtækja til að styðja við þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar.
Framlög til rannsóknarsjóðs munu aukast um 410 milljónir á næsta ári, en sjóðurinn hefur í ár 1.135 milljónir til úthlutunar. Sjóðurinn veitir styrki til skilgreindra rannsóknaverkefna vísindafólks og rannsóknanema í grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum.
Árið 2016 áætlar ríkisstjórnin að auka enn frekar við framlög í þessa tvo sjóði og verður þá heildarframlag í þá um fjórir milljarðar það árið. Þá er þess vænst aðgerðin auki fjárfestingar fyrirtækja um fimm milljarða. Það verður gert með því að skapa fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau sjái hag í að auka hlut sinn í rannsóknar- og nýsköpunarstarfi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti við þetta tilefni erindi á ráðstefnunni Nýsköpunartorgi í Háskólanum í Reykjavík í dag. Sagði hann að áætlunin myndi nýta skattkerfið til að ýta undir fjárfestingar fyrirtækja í nýsköpun og að skattalegir hvatar verði nýttir til að auka þátttöku einstaklinga við uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja. Samkvæmt heimildum mbl.is er horft til þess að fella niður sólarlagsákvæði um 20% endurgreiðslu á rannsóknarkostnaði og gefa einstaklingum kost á skattaafslætti ef þeir fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.
Í erindi sínu sagði Sigmundur að hann væri bjartsýnn á framtíðina með þessu skrefi og að hann vildi virkja sem flesta inn á svið nýsköpunar og þróunar. Aukið framlag í Rannsóknarsjóð er meðal annars ætlað að fjármagna 200 stöður fyrir doktorsnema árið 2016, en Sigmundur sagðist vonast til þess að þessar aðgerðir myndu ýta undir áhuga atvinnulífsins á að efla þróun og rannsóknir á komandi árum.