Efnahagsbatanum á Íslandi miðar vel og útlit er fyrir að hagvöxtur verði að meðaltali um 3% á komandi árum. Eftirspurn er að aukast og atvinnuleysi fer lækkandi. Fjármagnshöftin hafa stutt við aðlögun efnahagslífsins á umliðnum árum en nú er góður tími til þess að uppfæra áætlun stjórnvalda um afnám þeirra.
Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli Peter Dohlman, yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), þegar hann kynnti yfirlýsingu nefndarinnar á fréttamannafundi á Kjarvalsstöðu í morgun.
Hagvöxtur er drifin áfram af innlendri eftirspurn samhliða bættri eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja. Dohlman benti á að verðbólga væri núna í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands en í ljósi þess að slakinn í hagkerfinu sé nánast horfinn þá búist sjóðurinn við því að verðbólga taki að aukast á næsta ári.
Þrátt fyrir ýmis jákvæð teikn í efnahagslífinu þá má lítið út af bregða. Þannig gæti minni hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum Íslands haft neikvæð áhrif á framvindu efnahagsmála hérlendis með hærri lántökukostnaði og minni vexti í útflutningi.