Dr. ElhamMahmoud Ahmed Ibrahim, framkvæmdastjóri innviða- og orkumála hjá Afríkusambandinu, og Þorleifur Finnsson, yfirmaður verkefnaþróunar hjá Reykjavik Geothermal, undirrituðu í morgun samning um 1000 megavatta jarðhitaverkefni í Eþíópíu. Verkefninu er skipt í tvær 500 megavatta virkjanir en heildarfjárfesting fyrir virkjanirnar tvær verður um 4 milljarðar Bandaríkjadala eða um 450 milljarðar íslenskra króna. Samkomulag um verkefnið hafði áður verið kynnt í september á síðasta ári, en um er að ræða eina stærstu virkjanaframkvæmd sem íslenskt fyrirtæki hefur aðkomu að.
Í tilkynningu kemur fram að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafi verið viðstaddur undirritun þessa risasamnings í morgun á árlegum alþjóðlegum fundi veitenda þróunaraðstoðar á sviði jarðhita í Austur-Afríku, en fundurinn er að þessu sinni haldinn í Reykjavík á vegum framkvæmdastjórar Afríkusambandsins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Íslensk stjórnvöld hafa um árabil stuðlað að nýtingu jarðhita í Austur-Afríku með rannsóknum og byggt upp jarðhitaþekkingu meðal þjóða í afríska sigdalnum.
Í kjölfar fundarins verður haldið tveggja daga námskeið, sem Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna heldur utan um, en þar verður sérstaklega hugað að jarðhitatengdum málum sem snerta veitendur þróunaraðstoðar. Námskeiðið er því liður í þeirri viðleitni að auka áhuga og þekkingu annarra veitenda þróunaraðstoðar á jarðhita.
Fundurinn og námskeiðið eru haldið í tengslum við jarðhitaverkefni ÞSSÍ og Norræna Þróunarsjóðsins (NDF) sem miðar að því að aðstoða lönd í sigdalnum í Austur-Afríku við rannsóknir og mannauðsuppbyggingu á sviði jarðhitanýtingar með það markmið að auka möguleika þessara landa til framleiðslu sjálfbærrar orku. Þess er vænst að við lok verkefnisins hafi löndin skýra mynd af þeim möguleikum sem til staðar eru á sviði jarðhita.
Frétt mbl.is: Vinna að 300 megavatta virkjun í Eþíópíu
Frétt mbl.is: 500 milljarða fjárfesting í Eþíópíu
Frétt mbl.is: Mikil tækifæri í Eþíópíu
Frétt mbl.is: Möguleiki á þreföldun í Eþíópíu
Frétt mbl.is: Ísland nýtur trausts Eþíópíumanna