Stórhuga um humareldi á Íslandi

Soffía K. Magnúsdóttir og Ragnheiður Þórarinsdóttir, kynntu rætkun á humri …
Soffía K. Magnúsdóttir og Ragnheiður Þórarinsdóttir, kynntu rætkun á humri á nýsköpunarþingi. Komi til framleiðslu væri lágmarksstærð 60-100 þúsund dýr. Þetta yrði með fyrstu humareldisstöðvum í heimi. Árni Sæberg

Með því að rækta humar við jafnt hitastig má stytta vaxtartíma hans um rúmlega 70% miðað við það sem gerist í hafinu. Þrátt fyrir ýmis óleyst vandamál virðast góðir möguleikar á því að hægt verði að byggja upp slíkt eldi hér á landi á komandi árum, en það er Ragnheiður Þórarinsdóttir, verkfræðingur og fyrrum orkumálastjóri, sem leiðir verkefnið í gegnum fyrirtækið Svinnu verkfræðistofu. Það hefur nú verið í vinnslu síðan 2011 í samstarfi við norska og breska aðila.

Unnið að verkefninu síðan 2011

Ragnheiður segir að upphaflega hafi hún byrjað að vinna að þessari hugmynd árið 2011 og þá rætt við fyrirtækið Norwegian lobster farm sem hafi verið í rannsóknum í fjölda ára. Árið eftir var svo formlegu samstarfi komið á og sett upp viðskiptaplan. Á síðasta ári styrkti svo Tækniþróunarsjóður verkefnið og segir Ragnheiður að þá hafi verið farið í innflutning á fyrsta humrinum frá Noregi og Bretlandi, en notast er við aðra humartegund en finna má við Íslandsstrendur, svokallaðan Evrópuhumar. Fyrstu dýrin komu núna í apríl og voru þau til sýnis á ráðstefnunni Nýsköpunartorgi um helgina.

Framarlega í greininni

Hingað til hefur humar ekki verið ræktaður í stórum stíl upp í sláturstærð. Aftur á móti hefur t.d. breskt fyrirtæki ræktað þá með það fyrir augum að fjölga í stofninum og sleppa aftur út í hafið, en stofninn við Bretland og mörg önnur lönd hefur verið á hraðri niðurleið undanfarin ár. Humarinn er þá ræktaður á fyrstu eldisþrepunum og er enn mjög lítill og ekki nothæfur til átu. Ragnheiður segir að ef áætlanir fyrirtækisins gangi eftir verði fyrirtækið meðal þeirra fremstu í heimi á þessu sviði, en lítið sem ekkert er af raunverulegu humareldi til matvælaframleiðslu.

Hún tekur fram að enn séu heilmargar rannsóknaspurningar sem eigi eftir að finna svar við, en það sé sérstaklega tengt fjölgun dýranna. Humrar eru að eðlisfari mjög árásargjarnir og því þarf að hafa þá í aðskildum búrum, en ákveðin tækni í þeim efnum er meðal þess sem hefur verið unnið að hjá fyrirtækinu. Ragnheiður að fjölgunin sé enn í vinnslu, en að flestar spurningar varðandi eldið að öðru leyti hafi verið leystar. Þá sé alltaf í boði að kaupa inn humar frá Bretlandi á fyrstu eldisþrepunum.

Humarstofninn á niðurleið en eftirspurnin að aukast

Humarstofninn við mörg lönd er að minnka og Ragnheiður segir að veiðar hafi t.a.m. minnkað mikið við Noreg á síðustu árum. Á sama tíma er eftirspurn eftir humri hægvaxandi og nú sé að myndast mikið bil milli framboðs og eftirspurnar. Segir hún að með ræktun megi stytta uppvaxtarferli humarsins mikið, en úti í náttúrunni tekur það dýrin um sex til sjö ár að vaxa upp í þá stærð sem sóst er eftir, t.d. á veitingastöðum. Með eldi megi aftur á móti stjórna hitastiginu betur og koma í veg fyrir miklar sveiflur. Þannig sé hægt að stytta vaxtartíma dýrsins niður í allt að tvö ár.

Þurfa að vera stórhuga

Til að verkefni sem þetta gangi upp þarf að vera nokkuð stórhuga. Ragnheiður segir að lágmarksstærð á eldi til þess að það gangi upp sé á milli 60 og 100 þúsund dýr. Kostnaður við að koma slíku verkefni á legginn eru nokkrir milljarðar að sögn Ragnheiðar, en segir þó ekki enn komið að réttum tíma fyrir það. „Það er enn óvissa í kringum þetta verkefni og björninn er ekkert unninn,“ segir hún og bætir við: „Þetta er aftur á móti rosalega spennandi og ef þetta gengur yrði þetta fyrirtæki í heimsklassa.“

Hún segir að fyrirtækið sé ekki enn komið á það stig að leita formlega að fjárfestingu, þar sem enn eigi eftir að fá svör við nokkrum spurningum áður en verkefnið sé tekið áfram lengra. Það muni allt koma í ljós á næstu misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK