Landsvirkjun hefur ákveðið að meta möguleika á að reisa þyrpingu vindmylla, allt að 80 talsins á Þjórsár-Tungnársvæðinu. Rannsóknarvindmyllur hafa unnið rafmagn inn á raforkukerfi landsmanna síðan í janúar 2013 og hefur reksturinn gengið vel.
Landsvirkjun hefur lagt fram drög að tillögu að matsáætlun vegna uppbyggingar allt að 200 MW vindlundar á Þjórsár- Tungnaársvæði. Svæðið er innan Rangárþings Ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Landið er þjóðlenda í eigu íslenska ríkisins. Svæðið er um 34 ferkílómetrar að flatarmáli og hefur virkjunarkosturinn fengið nafnið Búrfellslundur, segir í frétt Landsvirkjunar. Í tillögu Landsvirkjunar kemur fram að vindmyllurnar á svæðinu verði allt að 80. Mastur hverrar vindmyllu yrði allt að 80 metrar hátt og þvermál spaða um 110 metrar.
Drög að tillögu að matsáætlun eru til kynningar á heimasíðu Landsvirkjunar, www.landsvirkjun.is, og heimasíðu verkfræðistofunnar Mannvits, www.mannvit.is. Allir geta kynnt sér drögin og sent inn skriflegar og rökstuddar athugasemdir, sem þurfa að hafa borist í síðasta lagi föstudaginn 13. júní 2014 á neðangreint póstfang eða með tölvupósti á netfangið haukur@mannvit.is.
Um verkefnið
Í desember 2012 reisti Landsvirkjun tvær vindmyllur í rannsóknarskyni ofan við Búrfell og er markmiðið að kanna hagkvæmni raforkuvinnslu með vindorku á Íslandi. Vindmyllurnar eru hvor um sig 900 kW og samanlögð vinnsla þeirra er um 6 GWst á ári.
Rannsóknarvindmyllurnar hafa unnið rafmagn inn á raforkukerfi landsmanna síðan í lok janúar 2013 og hefur reksturinn gengið vel. Niðurstöður undanfarinna mánaða sýna að aðstæður til virkjunar vindorku virðast hagstæðar á þessu svæði. Meðaltal nýtnihlutfalls til þessa er um 40% en til samanburðar er meðaltal á heimsvísu um 28%, segir í frétt frá Landsvirkjun um málið.
Í ljósi niðurstaðna í rannsóknarverkefninu hefur Landsvirkjun ákveðið að meta möguleika á að reisa fleiri vindmyllur í þyrpingu, svokölluðum vindlundi (e. wind farm eða wind park) á svæðinu. Ekki hefur áður verið skoðaður ítarlega sá möguleiki að setja upp vindlundi á Íslandi og meta tækifærin sem felast í samspili vind- og vatnsorku. Það felst því talsverð frumkvöðlavinna í verkefninu auk þess sem rýna þarf lagaumgjörð og reglur, bæði þær sem eru til staðar og vinna að mótun reglna þar sem þeirra nýtur ekki við.
Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt 1. viðauka laga nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum.
Hér má nálgast drög að tillögu að matsáætlun fyrir Búrfellslund
Frestur til að gera athugasemdir er til 13. júní 2014.