Íslandsbanki hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna viðtals sem birtist í ViðskiptaMogganum í dag þar sem fjallað er um málefni Skeljungs og Íslandsbanka. Bankinn vísar því á bug að hann hafi vísvitandi reynt að fara á svig við lög um fjármálafyrirtæki og samkeppnisreglur.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
„Íslandsbanki vísar á bug ásökunum sem fram koma í umfjöllun Morgunblaðsins í dag um málefni Skeljungs, þar sem gefið er í skyn að bankinn hafi vísvitandi reynt að fara á svig við lög um fjármálafyrirtæki og samkeppnisreglur. Umfjöllunin er einhliða og ekki var leitað eftir viðbrögðum Íslandsbanka við vinnslu fréttarinnar.
Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja var eitt af megin verkefnum Íslandsbanka í kjölfar efnahagshrunsins. Í þeirri vinnu var það stefna Íslandsbanka að leysa ekki til sín eignarhluti í félögum,ef hjá því væri komist, heldur vinna að lausnum í samráði við eigendur eða selja þau í opnu söluferli. Ein af forsendum slíks samstarfs var að traust ríkti til viðkomandi eigenda.
Í þessu verkefni, eins og öðrum, var unnið samkvæmt innri reglum bankans sem miða að því að uppfylla samkeppnislög og önnur lög sem um starfsemi bankans gilda. Íslandsbanki hefur í slíkri vinnu einnig lagt áherslu á að halda eftirlitsaðilum vel upplýstum og var bankinn í samskiptum við Samkeppniseftirlitið vegna þessa máls og hélt því upplýstu á öllum stigum þess.
Í umfjöllunni í Morgunblaðinu er ítrekað reynt að gera starfsmenn bankans og vinnubrögð þeirra tortryggileg með dylgjum og ósannindum í þeirra garð. Íslandsbanki getur hinsvegar ekki, lögum samkvæmt, tjáð sig um einstaka viðskipti né samskipti bankans við einstaka viðskiptamenn nema með samþykki þeirra.“