Eftirspurn orðin meiri en framboðið

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir þörf vera á fleiri virkjunum …
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir þörf vera á fleiri virkjunum svo hægt sé að staðfesta fleiri raforkusamninga. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að eftirspurn eftir raforku sé orðin meiri en framboðið og að sú verði eflaust raunin í framtíðinni. Þörf sé á fleiri virkjunum þannig að hægt verði að skrifa undir fleiri raforkusamninga til stóriðjugreina.

Í samtali við mbl.is segir Hörður aðspurður að þessi mikla eftirspurn bæti tvímælalaust samningsstöðu Landsvirkjunar. Hún gefi jafnframt gott svigrúm til verðhækkana.

Eins og greint hefur verið frá í vikunni er verið að vinna að undirbúningi þess að fjórar kísilverksmiðjur rísi hér á landi á næstu árum. Um er að ræða kísilverksmiðju PCC á Bakka, verksmiðju United Silicons í Helguvík, Thorsils einnig í Helguvík og loks Silicor Materials á Grundartanga.

Landsvirkjun hefur nú þegar skrifað undir raforkusölusamninga við PCC og United Silicons.

Hagkvæmustu raforkusamningar í Evrópu

„Við erum ánægð með það að okkur er að takast að fylgja eftir þeirri verðstefnu sem við höfum markað, þ.e. að fá betra raforkuverð. Þessi grein hefur ágætis greiðslugetu,“ segir Hörður og bætir við:

„Það ber þó að hafa í huga, sem endurspeglast í þessum áhuga, að við erum áfram að bjóða mjög hagkvæma raforkusamninga. Þetta eru án efa hagkvæmustu raforkusamningar sem í boði eru fyrir nýjar verksmiðjur í Evrópu.“

Hörður segir að innan kísilmálmiðnaðarins, sem iðngreinar, hafi Ísland um nokkurt skeið verið til skoðunar. Greinin sé „að komast út úr kreppunni, sem plagað hefur allar iðngreinar, og er ljóst að eftirspurn eftir þeirra vörum er að aukast. Það er verið að skoða að reisa verksmiðjur á nokkrum stöðum í heiminum, en það liggur hins vegar fyrir að menn telja það áhugaverðan kost að vera með hluta framleiðslunnar innan Evrópu.

Aukin fjölbreytni af hinu góða

Þá er ljóst að hagkvæmasta staðsetningin er líklega Ísland um þessar mundir,“ segir Hörður. Það komi sérstaklega til vegna þess að hér sé boðið upp á örugga raforkusamninga til langs tíma sem erfitt sé að fá í öðrum löndum.

Hann segist einnig vera ánægður með það fá fjölbreyttari hóp viðskiptavina. „Það er mikilvægt og gott að fá aukna fjölbreytni í viðskiptamannahópinn,“ segir hann.

Aðspurður segir hann að Landsvirkjun þurfi, að því gefnu að samningarnir tveir við PCC á Bakka og United Silicons verði kláraðir, að fá aðgang að fleiri virkjanakostum. „Þá erum við fyrst og fremst að horfa á vatnsaflsvirkjanir á Suðurlandi. Þar má fyrst nefna stækkun á Búrfellsvirkjun og einnig bíðum við eftir því að stjórnvöld ljúki við að endurmeta þá fimm virkjanakosti sem færðir voru úr orkunýtingarflokki yfir í biðflokk,“ segir hann.

Horfa helst til Hvammsvirkjunar

Þeim kostum var vísað til verkefnisstjórnar um rammaáætlun fyrir um ári síðan og hefur málið verið tekið upp á nýjan leik á Alþingi. Í byrjun aprílmánaðar lagði síðan umhverfis- og auðlindaráðherra fram þingsályktunartillögu um að Hvammsvirkjun í neðri Þjórsár verði flutt úr biðflokki í nýtingarflokk. Var það í samræmi við tillögu verkefnisstjórnarinnar.

„Við bindum vonir við það að einhverjir kostir þar verði færðir í nýtingarflokk, en það liggur hins vegar ekki fyrir. Við erum þá helst að horfa til Hvammsvirkjunar,“ segir Hörður.

Frétt mbl.is: Tímamót í þremur kísilverkefnum

Lagt hefur verið til að Hvammsvirkjun fari úr biðflokki rammaáætlunar …
Lagt hefur verið til að Hvammsvirkjun fari úr biðflokki rammaáætlunar og í orkunýtingarflokk. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK