Delta Air Lines hefja daglegt flug til og frá Íslandi til New York á næstu dögum og ljóst er að þetta mun hleypa lífi í samkeppnina á flugi vestur um haf. Samkvæmt stuttri könnun mbl.is getur munað allt að helmingi á því verði sem Icelandair býður og það sem kostar að fljúga með Delta.
Fyrr í dag sagði mbl.is frá því að Delta hyggðist fjölga ferðum sínum yfir sumartímann til Íslands, en í vikunni hefst daglegt flug frá JFK flugvellinum í New York til Keflavíkur. Mbl.is athugaði hvað helgarferð til New York kostaði með báðum flugfélögum og athugaði helgina 20-22. júní.
Í heild kostar flug fram og til baka hjá Icelandair 153.360 krónur á þessum dagsetningum, en hjá Delta kostar sama flug 81.250 krónur. Hjá báðum félögum er innifalin ein taska, en ekki var gerður samanburður á frekari þjónustuliðum í þessari könnun.
Þegar horft var lengra fram í tímann og helgarferðir í júlí og ágúst voru skoðaðar var verðið aftur á móti orðið mjög svipað, eða í kringum 90 þúsund krónur hjá hvorum aðila og jafnvel hærra hjá Delta um miðjan ágúst með allt upp í 119 þúsund fyrir ferð fram og til baka. Það borgar sig því væntanlega fyrir neytendur að skoða vel þau verð sem í boði eru og hvenær fljúga á út.