Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að bjartir tímar séu framundan í íslensku efnahagslífi. Áfallið hafi verið mikið í fárviðri efnahagshrunsins haustið 2008 en batinn hafi hins vegar verið stöðugur og útlit sé fyrir að hagvöxtur sé loksins að taka við sér, ólíkt því sem átt hefur sér stað víða um heim.
Jón Bjarki hélt erindi á morgunverðarfundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins á Hilton Nordica Hótel í morgun. Auk viðskiptaráðsins er fundurinn á vegum Íslandsbanka og DNB bankanum í Noregi.
Hann telur að horfur í efnahagsmálum hér á landi séu góðar um þessar mundir. Greining Íslandsbanka spáir til dæmis 3,2% hagvexti í ár, sem er svipað og var á síðasta ári, 3,3% hagvexti á næsta ári og 2,4% hagvexti árið 2016.
Þó segir Jón Bjarki að hagvöxturinn í ár verði af öðrum toga en í fyrra. Þá var hann drifinn áfram af utanríkisviðskiptum en nú gerir hann ráð fyrir að vöxturinn verði drifinn áfram af vexti í einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi.
Hann bendir á að í raun megi segja að árið 2014 verði ár jafnvægis. Hvorki sé mikill slaki né þrýstingur í hagkerfinu. Gengi krónunnar sé nokkuð stöðugt og verðbólgan í kringum 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.
Samkvæmt spá Jóns Bjarka mun verðbólgan haldast aðeins undir verðbólgumarkmiðinu á þessu ári, en muni þó aukast á næstu ári, samhliða aukinni spennu og hagvexti í efnahagslífinu. Hann á von á því að verðbólgan verði rétt tæplega 3% á næsta ári og um 3,1% árið 2016.
Hann segir að peningastefnunefnd Seðlabankans verði 6.að bregðast við þessari þróun og muni líklegast geri það. Hann segir það ekki vera ólíklegt að nefndin ákveði að hækka stýrivexti bankans á næsta ári og spáir hann því að vextirnir verði komnir frá sex prósentum í 6,75% í lok árs 2016.
Hlutfall fjárfestingar af vergri landsframleiðslu hefur verið ansi lágt hér á landi undanfarin ár. Hlutfallið var tæp 14% í fyrra, en til samanburðar segir Jón Bjarki að fjárfestingarhlutfall hjá OECD-ríkjunum hafi að jafnaði verið um 20% undanfarinn áratug. Hann gerir hins vegar ráð fyrir því að þetta hlutfall fari hægt og bítandi hækkandi, verði um 14% á þessu ári en 17% árið 2016.
Jón Bjarki bendir einnig á að ekkert sé gefið í þessum efnum. Verkefnið snúist nú fyrst og fremst um að flétta gjaldeyrishöftunum. Það sé erfitt og krefjandi verkefni, sér í lagi ef ætlunin er að viðhalda stöðugleikanum á sama tíma, en hins vegar nauðsynlegt þannig að traust á efnahagslífinu aukist á nýjan leik.