Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að helsta ógnin sem steðji að íslenska hagkerfinu eins og er sé vinnumarkaðurinn. Ef illa tekst til við að koma á og halda stöðugleika á markaðinum sé voðinn vís.
„Þá mun sagan endurtaka sig hér á landi. Ef það gerist munum við horfa upp á hærri verðbólgu og annað tveggja til fjögurra ára tímabil þarf sem við þurfum að aðlagast breyttum aðstæðum,“ sagði hann í erindi sínu á morgunverðarfundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins í morgun.
Hann sagðist hins vegar trúa því að það þyrfti ekki verða raunin. Við Íslendingar værum smám saman að læra af sögunni.
Fundurinn fór fram á Hilton Nordica Hótel í morgun og var á vegum Norsk-íslenska viðskiptaráðsins, Íslandsbanka og hins norska DNB bank.
Bjarni benti jafnframt á í erindi sínu að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem átti nýlega eins árs afmæli, hefði viljað auka pólitískan stöðugleika þegar hún komst til valda.
Ætlun fyrri ríkisstjórnar hefði verið að ráðast í of miklar og dramatískar aðgerðir strax á árunum eftir hrun bankanna. Hún hefði til að mynda haft það í hyggju að endurskrifa stjórnarskrána og gera viðamiklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Stöðugleikanum, sem væri svo mikilvægur þegar erlendir fjárfestar skoðuðu landið sem fjárfestingarkost, hefði verið varpað fyrir róða.
Bjarni sagði jafnframt að of fáir Íslendingar gerðu sér grein fyrir því hvað hefði gerst í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum 25 árum. Flest lönd hefðu verið í miklum vandræðum með sjávarútveginn og þess vegna hefðu þau gripið til þess ráðs að niðurgreiða hann. Á Íslandi væri hins vegar sjávarútvegur afar arðbær atvinnugrein sem skilaði heilmiklum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. Engin lönd í heiminum legðu, eins og við, sérstakan skatt á sjávarútveg.
Flestir ræðumenn á ráðstefnunni fjölluðu um það litla atvinnuleysi sem væri hér á landi, sér í lagi í samanburði við Evrópuríki. Bjarni benti á að atvinnuleysi á Íslandi væri minna en í hverju einasta af Evrópusambandsríkjunum 28. Hann sagði að sá veruleiki væri í beinum tengslum við þá ákvörðun stjórnvalda að hafa eigin gjaldmiðil, krónuna. Við hefðum tekið kreppuna út í gegnum gjaldmiðillinn, en ekki í gegnum vinnumarkaðinn, líkt og í Evrópu.
Frétt mbl.is: Bjartari tímar framundan
Frétt mbl.is: Íslensku bankarnir vel fjármagnaðir
Frétt mbl.is: Væntingar kröfuhafanna of miklar