„Einn litríkasti og umdeildasti maður smásölumarkaðarins, Jón Ásgeir Jóhannesson, plottar nú endurkomu sína til Bretlands eftir að hafa verið sýknaður af ákæru um fjársvik.“ Þannig hefst grein sem enska viðskiptablaðið Retail Week birtir í dag um Jón Ásgeir Jóhannesson.
Breskir miðlar hafa síðustu daga gert sér mat úr yfirlýsingum Jóns Ásgeirs um að hann hlakki til að hefja fjárfestingar á ný, eftir að hann var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudaginn í Aurum-málinu svonefnda. Bæði Financial Times og Telegraph fjölluðu um dóminn eftir að sýknudómurinn var kveðinn upp.
Í umfjöllun Retail Week segir að Jón Ásgeir hafi áður verið gulldrengur hins íslenska efnahagsundurs. Nú þegar hann hafi verið hreinsaður af öllum sökum sé Jón Ásgeir sannfærður um að hann eigi enn góð tengsl inn á breskan markað og muni geta safnað þar fjárfestingum.
Rifjað er upp að í fyrri lotu Jóns Ásgeirs hafi ekki reynst neitt vandamál fyrir hann að verða sér úti um fé til fjárfestinga. Baugur hafi verið „íslensk fjárfestingavél á sterum“ og m.a. keypt stóra hluti í Arcadia, House of Fraser og Debenhams, Hamleys, Woolworths, Mars &Spencer, Sports Direct og French Connection.
Á hátindinum hafi eignir Jóns Ásgeirs í Bretlandi verið metnar á 600 milljónir punda og hann hafi stjórnað veldinu af glæsilegri skrifstofu sinni á 5. hæð við Bond Street í hjarta London. Að sögn Retail Week kunni Jón Ásgeir ekki aðeins að hljóma eins og ofurfjárfestir, hann hafi litið þannig út líka, meira eins og rokkstjarna en dæmigerður viðskiptamaður.
Nú þegar hann hefur verið hreinsaður af öllum sökum í Héraðsdómi telur blaðamaður Retail Week að Jón Ásgeir fái tækifæri á ný til að stíga út úr skugganum af hruni Baugs, með fyrirheit um að „ísmaðurinn snúi aftur“.