Framtakssjóður Íslands hefur selt allt hlutafé sitt í eldsneytisfélaginu N1. Sjóðurinn átti 20,9% eignarhlut í félaginu. Miðað við núverandi gengi hlutabréfa N1 nemur söluandvirðið 3,45 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.
Fyrir viðskiptin var Framtakssjóðurinn langsamlega stærsti hluthafi félagsins, með 209.013.442 hluti, en þar á eftir kemur Lífeyrissjóður verslunarmanna sem á tíu prósenta hlut í félaginu.
Ekki kemur fram hver kaupandinn er.
Framtakssjóðurinn hefur nú því selt fimm af þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn hafði fjárfest í; Húsasmiðjuna, Plastprent, Fjarskipti hf. (Vodafone), Icelandair Group og N1. Fjarskipti var skráð í Kauphöll Íslands undir forystu sjóðsins.
Gert var ráð fyrir nýfjárfestingum á vegum Framtakssjóðs fyrstu þrjú árin og stefnt er svo að sölu félaga í eigum sjóðsins innan fjögurra til sjö ára. Gert er ráð fyrir að líftími sjóðsins verði um tíu ár. Heimilt er þó að framlengja rekstrartímann, að því er fram kemur á vef sjóðsins.