Hagnast um 1,3 milljarð á sölu N1

Hagnaður Framtakssjóðs Íslands vegna sölunnar á N1 er nálægt 1,3 …
Hagnaður Framtakssjóðs Íslands vegna sölunnar á N1 er nálægt 1,3 milljörðum. Upplýsingafulltrúi sjóðsins segir ávöxtunina mjög ásættanlega. mbl.is/Hjörtur

Fjárfestingin í N1 var mjög viðunandi, en með sölu á félaginu í vikunni hefur Framtakssjóður Íslands selt eignir fyrir alls 30,9 milljarða. Þetta segir Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi sjóðsins, í samtali við mbl.is, en á mánudaginn seldi félagið allt hlutafé sitt í N1, samtals 20,9%. Sölugengið var 17 krónur á hlut en þegar tekið er mið af arðgreiðslu sem átti sér stað á þessu ári var sölugengið 18,65 krónur. Við skráningu félagsins í lok síðasta árs var útboðsgengi í b-hluta 18,01 króna.

Framtakssjóðurinn á ennþá fjórar eignir; Advania, Icelandic, Invent Farma og Promens. Ómögulegt er að sögn Hafliða að segja til um hvenær hlutur sjóðsins í þeim verður seldur eða hvort stefnt verður að því að setja þau öll á markað. Áður hafði sjóðurinn selt í fjórum félögum, en það voru Vodafone, Icelandair, Húsasmiðjan og Plastprent. Tvö síðastnefndu voru ekki á skráðum markaði við sölu og útilokar hann ekki að önnur félög verði seld þannig. „Það er ómögulegt að segja með næstu sölur, en fyrirtæki hennta mismunandi vel til skráningar,“ sagði Hafliði.

1,3 milljarðar í hagnað vegna sölu N1

Sjóðurinn gefur ekki upp hver arðsemi einstaka verkefna er en ef kaupgengi félagsins er skoðað og tekið tillit til kauprétta fyrir skráningu í Kauphöllina má gera ráð fyrir að sjóðurinn hafi innleyst um 1,3 milljarða í hagnað af þeim 3,5 milljörðum sem hluturinn var seldur á í vikunni.

Framtakssjóðurinn hefur heimild til að fjárfesta í nýjum félögum til febrúarloka árið 2015, en tímabilið var framlengt um eitt ár í fyrra. Þá getur félagið framlengt heimildina í eitt ár til viðbótar við það. Spurður út í frekari fjárfestingar segir Hafliði að ekki sé hægt að útiloka neitt í þeim efnum. Segir hann að starfsemin muni nú halda áfram í óbreyttu formi og þar sé alltaf möguleiki á kaupum ef upp komi gott tækifæri. Síðasta fjárfesting félagsins var árið 2013 þegar hluturinn í Invent Farma var keyptur.

Hagnaður af fjárfestingum og eiga enn bréf í 4 félögum

Hluthafar Framtakssjóðsins eru Landsbankinn og flestir af stærri lífeyrissjóðum landsins ásamt VÍS. Í heild hafa sjóðnum verið lagðir til 38,5 milljarðar til fjárfestinga en Hafliði segir að nú hafi það skilað sér. Fyrir N1-söluna hafði sjóðurinn greitt hluthöfum út 27,4 milljarða, en ekki er heimild til þess að endurfjárfesta fjármuni sem koma með sölu. Til viðbótar verða svo væntanlega greiddir út 3,5 milljarðar vegna N1-sölunnar og þá hafa hluthafarnir í heild fengið 30,9 milljarða.

Framtakssjóðurinn fékk svo 75 milljón evrur í greiðslu vegna leigu á vörumerkinu Icelandic í Norður-Ameríku og sölu á starfsemi þess. Á gengi dagsins í dag eru það um 11,6 milljarðar og því er ljóst að sjóðurinn hefur fengið rúmlega 40 milljarða og á enn hlut í fjórum félögum.

Hlutur Framtakssjóðsins í þeim félögum skiptist þannig að í Advania á sjóðurinn 71,26%, í Invent Farma 38% og í Promens 49,5%. Sjóðurinn á svo allt hlutafé í Icelandic.

Framtakssjóður Íslands.
Framtakssjóður Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK