Pipraður harðfiskur á Akranesi

Matthías Harðarson, eigandi Felix-fisk, með nýju afurðina.
Matthías Harðarson, eigandi Felix-fisk, með nýju afurðina.

Í ár heldur Akraneskaupstaður upp á 150 ára verslunarafmæli sitt og af því tilefni brugðið á ýmislegt nýstárlegt. Meðal annars verður haldinn matar- og antikmarkaður í gamla Landsbankahúsinu við Akratorg. Markaðurinn mun opna á morgun klukkan eitt, en hann verður jafnframt haldinn alla laugardaga í sumar. Meðal þess sem hægt verður prófa nýtt á markaðinum er pipraður harðfiskur, en það er harðfiskvinnslan Felix fisk sem stendur á bakvið þessa nýju hugmynd.

Ekki ólíkt snakki

Í samtali við mbl.is segir Matthías Harðarson, eigandi Felix-fisk, að hann hafi fyrst séð pipraðan harðfisk í Noregi og líkað vel við. Hann hafi í framhaldinu ákveðið að prófa að gera þetta hér á landi, en hann veit ekki til þess að þetta hafi verið selt hér á landi áður.

Harðfiskurinn er sá sami og er venjulega notaður, en hann minnkar saltnotkun um helming og setur í stað pipar. Aðspurður út í hvernig bragðið lýsir sér segir Matthías að þetta sé ekki ólíkt kartöfluflögum með salti og pipar, en í stað kartöfluflagna sé hollur harðfiskur. „Þetta er ekki ólíkt snakki og bragðið er mjög áhugavert,“ segir hann.

Töluverð tilraunastarfsemi

Matthías er ekki ókunnur fiskvinnslu og útgerð, en hann hefur rekið smáútgerð frá árinu 1992 og árið 2009 stofnaði hann Felix-fisk og hóf harðfiskvinnslu. Meirihlutinn af framleiðslunni er seldur til Noregs og Færeyja, en Matthías segir að gangi piparfiskurinn eftir sé aldrei að vita nema hann fari í sölu hér á landi.

Í vinnslunni hefur verið töluvert um tilraunastarfsemi að sögn Matthíasar og nefnir hann sem dæmi að þeir þurrki þar karfa. „Þetta er aðallega fikt,“ segir hann, en útilokar ekki að það muni skila sér í nýjum vörum seinna meir.

Fjölbreyttur matarmarkaður á morgun

Ásamt pipar-harðfiskinum verður ýmislegt í boði á matarmarkaðinum og má þar meðal annars nefna humar, nautakjöt, lambakjöt, ópillaða rækju, broddmjólk og skyrkonfekt. Þá verður einnig mikið úrval lífrænna matvæla í boði, svo sem hnetur, möndlur og rjómaís. Að lokum munu íraskar konur, sem eru búsettar á Akranesi, sjá um að matreiða úrval arabískra rétta á borð við hummus og falafel.

Gestir markaðarins geta svo notað hið nýja og endurbætta Akratorg til að fara í „pikknikk“ en hægt verður að fá teppi og dúka að láni til þess. Torgið verður einmitt formlega opnað á morgun, en þar hefur verið komið fyrir nýjum gosbrunn og allar götur í kringum það malbikaðar á ný.

Pipar-harðfiskurinn er alls ekki ólíkur þeim venjulega.
Pipar-harðfiskurinn er alls ekki ólíkur þeim venjulega.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK