Því hærri sem laun forstjóra stórfyrirtækja eru þeim mun verri afkomu skila þau næstu þrjú árin. Ástæða þess er talin vera of mikið sjálfsálit hjá þeim sem eru komnir á toppinn hjá stærstu fyrirtækjunum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem tímaritið Forbes greinir frá. Skoðuð voru 1.500 skráð stórfyrirtæki á 20 ára tímabili, en horft var til launagreiðsla til stjórnenda og árangurs fyrirtækisins næstu þrjú ár þar á eftir.
Fylgnin milli hárra launa og lélegs árangurs var sérstaklega sterk hjá 150 stærstu fyrirtækjunum og segir í frétt Forbes að með hærri launum verði stjórnendur svo öruggir með eigið ágæti að þeir hunsi gagnrýni og neikvæðar fréttir. Þá fjárfesti þeir of mikið og í lélegum verkefnum.
Þá var einnig að finna fylgni milli þess sem forstjórar voru lengi við stjórnvölin og þess hvernig fyrirtækjunum gekk. Þannig voru forstjórar sem sátu lengi í forstjórastólnum líklegri til að safna að sér stjórnarmeðlimum sem höfðu svipaða sýn á reksturinn og voru líklegir til að samþykkja slæmar ákvarðanir gagnrýnilaust. Var frammistaða fyrirtækja sem höfðu haft sama forstjórann í langan tíma 22% verri en annarra fyrirtækja.
Ofurlaun forstjóra hafa lengi verið réttlætt með því að þeir skili fyrirtækjunum miklu til baka í formi betri rekstrar. Þessi rannsókn virðist aftur á móti kollvarpa þeirri tilgátu, jafnvel þótt finna megi dæmi um ofurlaunaða forstjóra sem hafa skilað góðu búi. Í heild skila þau 10% fyrirtækja sem eru með hæstu forstjóralaunin 10% minni arðsemi til fjárfesta en meðaltal allra fyrirtækjanna. Arðsemin var svo 15% minni hjá þeim 5% fyrirtækja sem höfðu hæstu forstjóralaunin.