Hvernig væri að læra að blanda fallegan cappuccino og um leið fá gráðu í lögfræði?
Bandaríska kaffihúsakeðjan Starbucks tilkynnti á dögunum áhugaverða viðbót við fríðindapakka starfsmanna. Frá og með mánudeginum stendur þeim til boða að fá ókeypis háskólamenntun á kostnað vinnuveitandans.
Er um að ræða samstarfsverkefni Starbucks og Arizona State University (ASU) og felur það í sér að allir þeir sem eru í a.m.k. hálfu starfi á kaffihúsum Starbucks í Bandaríkjunum, samtals um 135.000 manns, geta endurgjaldslaust eða endurgjaldslítið stundað fjarnám við háskólann, háð því að þeir uppfylli inntökuskilyrði ASU.
Í tilkynningu frá Starbucks kemur fram að 70% starfsmanna keðjunnar séu í námi eða á leiðinni í nám.
Bandarískar bachelor-gráður taka fjögur ár. Fyrstu tvö ár námsins greiðir Starbucks hluta kostnaðarins og veitir að auki fjárhagsaðstoð sem tekur mið af aðstæðum starfsmannsins. Seinni tvö árin námsins greiðir Starbucks skólagjöldin að fullu.
Fá allir starfsmenn sem þiggja styrkinn persónulega aðstoð frá námsráðgjafa og fjármálaráðgjafa og aðstoð við umsóknarferlið.
Ekkert skuldbindur starfsmennina til að vinna áfram hjá Starbucks þegar náminu er lokið.
Wall Street Journal segir þetta útspil kaffirisans m.a. til þess gert að draga úr starfsmannaveltu og lækka þannig ráðningar- og þjálfunarkostnað. ASU reiknar með að verkefnið laði á bilinu 15-20.000 nýja fjarnema til skólans. Árleg skólagjöld í fjarnámi ASU eru á bilinu 3.000 til 10.000 dalir á ári, eftir námsbraut og námshraða.