Spurt og svarað um lífeyristryggingar

Hvaða þýðingu hafa breytingar á reglum Seðlabankans um samninga sem …
Hvaða þýðingu hafa breytingar á reglum Seðlabankans um samninga sem gerðir hafa verið við erlend tryggingafélög um viðbót­ar­trygg­inga­vernd, söfn­un­ar­trygg­ing­ar og sparnað? Ómar Óskarsson

Seðlabanki Íslands tilkynnti á þriðjudaginn að reglum um gjaldeyrismál yrði breytt þannig að stór hluti samninga sem gerðir hafa verið við erlend tryggingafélög í erlendum gjaldmiðli um viðbót­ar­trygg­inga­vernd, söfn­un­ar­trygg­ing­ar og sparnað verði stöðvaður. En hvaða þýðingu hefur þetta fyrir viðskiptavini félaganna? Mbl.is fékk svör frá Seðlabankanum við nokkrum algengum spurningum. Frekari upplýsingar má einni finna á síðu Seðlabankans.

Spurning: Hvaða félög falla undir þessar breyttu reglur?

Svar: Meðal þeirra félaga sem hafa boðið þessa samninga eru Sparnaður, umboðsaðili Bayern-Versicher­ung á Íslandi, Alli­anz á Íslandi, Trygg­ing­ar og ráðgjaf­ar sem er miðlari fyr­ir Sun Life og Friends Provi­dent á Íslandi og nokkur fjöldi annarra sjálfstæðra tryggingamiðlara og miðlana, sjá á heimasíðu Seðlabankans.

Spurning: Hvað er það sem er óheimilt?

Svar:  Ýmsar tegundir samninga fela í sér óheimilan sparnað eða söfnun erlendis. Í tilkynningu Seðlabankans kemur fram að fjármagnshöftin eigi ekki við um vöru- og þjónustuviðskipti. „Iðgjaldagreiðslur samkvæmt samningum um vátryggingar, t.d. líf- sjúkdóma- eða slysatryggingar, teljast kaup á þjónustu og eru því heimilar skv. lögum um gjaldeyrismál. Hins vegar takmarka fjármagnshöftin greiðslur vegna samninga sem fela í sér söfnun eða sparnað erlendis, óháð því hvaða nafni þeir nefnast, nema slíkir samningar hafi komist á fyrir innleiðingu fjármagnshafta.“

Spurning: Snertir þetta alla viðskiptavini viðkomandi félaga?

Svar: Nei þetta snertir ekki alla viðskiptavini. Sumir eru aðeins með hreinar tryggingaafurðir án sparnaðar, svo sem líftryggingar, sjúkdómatryggingar og skaðatryggingar. Ekki þarf að breyta þeim, þar sem slíkir samningar falla undir þjónustukaup í skilningi laga um gjaldeyrismál. Í sumum samningum getur verið um skörun að ræða milli tryggingar og sparnaðar og þarf þá að hafa samband við sinn þjónustuaðila til að fá upplýsingar um hvernig samningurinn sé.

Spurning: Eru einhverjir með löglegan sparnað og þá hverjir?

Svar: Þeir sem gerðu samning um erlendan sparnað fyrir 28. nóvember 2008, þegar lög um fjármagnshöftin voru sett, eru með löglegan sparnað.

Spurning: Geta þeir haldið áfram með erlendan sparnað?

Svar: Þeir sem skrifuðu undir samning fyrir innleiðingu fjármagnshafta geta haldið sínum sparnaði áfram.

Spurning: Hvað gerist fyrir þá sem ekki geta haldið áfram með erlendan sparnað?

Svar: Seðlabankinn hefur veitt tímabundna undanþágu frá viðeigandi bannákvæðum til fjögurra mánaða, en á því tímabili þurfa samningsaðilar að breyta skilmálum samninga sinna þannig að þeir séu í innlendum gjaldeyri eða fara í ótímabundið greiðsluhlé sé það heimilt samkvæmt skilmálum samnings. Ekki þarf að skila þeim gjaldeyri sem þegar hefur verið safnað. Þegar aðlögunartímabilinu lýkur er einstaklingum heimilt að standa við gerða samninga í innlendum gjaldeyri. 

Spurning: Geta allir viðskiptavinir greitt trygginguna næstu fjóra mánuði til erlendra aðila?

Svar: Já, undanþágan veitir öllum, hvort sem þeir eru með löglegan eða ólöglegan sparnað að greiða næstu fjóra mánuði.

Spurning: Hvað þurfa erlendu félögin að gera á þessum fjórum mánuðum til þess að aðlaga fyrirkomulag iðgjaldagreiðslna að framkvæmd sem samrýmist íslenskum lögum?

Svar: Seðlabankinn mun veita erlendu tryggingafélögunum heimild til að skuldbreyta samningum úr erlendri mynt yfir í íslenskar krónur. Í framhaldinu þurfa þau að ávaxta iðgjöld viðskiptavina sinna hérlendis.  Ef tryggingafélög geta ekki greint á milli sparnaðarhluta og tryggingahluta er samningurinn í heild sinni talinn óheimill.

Spurning: Hvernig veit ég hvort ég er með hreinan sparnað eða blöndu sem inniheldur einnig líf- sjúkdóma- og slysatryggingar?

Svar: Þú þarf að hafa samband við þann þjónustuaðila sem tryggingin var keypt af.

Spurning: Getur tryggingarfélagið rift samningnum?

Svar:Seðlabankinn bendir á skilamála viðkomandi samnings varðandi hvort tryggingarfélög geti sagt samningum upp.

Spurning: Mun Seðlabankinn eitthvað aðhafast vegna ólöglegs sparnaðar síðustu ár hjá einstaklingum?

Svar:Á heimasíðu Seðlabankans kemur fram að ekki verði hafin rannsókn á einstaklingum sem gert hafa samninga um sparnað við erlent tryggingafélag eða þeim gert að innleysa höfuðstól slíkra samninga. Einstaklingar sem hafa því safnað upp sparnaði, en sagður er ólöglegur, fá að halda honum í erlendum gjaldeyri.

Spurning: Hvenær var tryggingarfélögunum gerð grein fyrir því að þetta mál væri til skoðunar?

Svar: Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hefur þessi sparnaður alltaf verið ólöglegur. Um nokkurt skeið hefur verið til skoðunar hvort hann falli undir lög um gjaldeyrismál. Á heimasíðu bankans segir að athugun hans hafi leitt í ljós að ýmsar tegundir samninga fela í sér óheimilan sparnað eða söfnun erlendis. Þá var ljóst að stöðvun greiðslna myndi snerta marga og aðila og var það haft að leiðarljósi við gerð reglnanna. „Ennfremur taldi Seðlabankinn nauðsynlegt að skilningur annarra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þessum mörkum væri sá sami og bankans, sem skýrir meðal annars af hverju ekki hefur verið gripið til ráðstafana fyrr,“ segir jafnframt á heimasíðu bankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK