Vilja afnema tolla og vörugjöld á öllum sviðum

Félag atvinnurekenda vill efla vitund landsmanna á hinu flókna vörugjaldskerfi.
Félag atvinnurekenda vill efla vitund landsmanna á hinu flókna vörugjaldskerfi. mbl.is/Árni Sæberg

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að hið íslenska vörugjaldakerfi sé ósanngjörn skattheimta sem mismuni vöruflokkum og atvinnugreinum. Hann segir kerfið vera úrelt og að stjórnmálamenn verði nauðsynlega að sýna kjark og afnema tolla og vörugjöld á öllum sviðum.

„Vörugjalda- og tollakerfin er ótrúlega flókin og því miður eru þau til þess fallin að skapa tortryggni gagnvart því að verið sé að umbuna innlendri framleiðslu á óeðlilegan hátt,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið. Sú spurning vakni hvort kerfið sé flókið til þess eins að verja sjálft sig.

Félag atvinnurekenda hefur unnið að því að grisja frumskóg tolla- og vörugjalda, en félagið vill efla vitund landsmanna um það sem það segir vera ósanngjarnt og flókið kerfi sem hefur verið við lýði hér á landi um margra ára skeið.

Almar segir að það hafi lengi verið eitt helsta baráttumál félagsins að berjast gegn verndarhyggju íslenskra stjórnvalda. „Í sjálfu sér er þetta eldgamalt mál. Við höfum lengi, áður en félagið skipti um nafn og hét Félag íslenskra stórkaupmanna, barist gegn þessum sömu skaðlegu vörugjöldum og tollum,“ segir hann og bætir við að félagið hafi jafnframt lagt mikla áherslu á þennan málaflokk undanfarin fimm ár, eða frá því að stjórnvöld lögðu á hinn umdeilda sykurskatt sumarið 2009.

Hann segir það skýrt í sínum huga að afnám tolla og vörugjalda á öllum sviðum sé afar mikilvægt mál sem myndi skila miklum þjóðhagslegum ábata, aukinni samkeppni sem og bættum hag neytenda. Gjöldin gera það meðal annars að verkum að allt verð skekkist. Og það þekkja það allir sem hafa lesið hagfræði að þá myndast ákveðin sóun og afleiðingarnar eru mjög alvarlegar. Það fer auðvitað eftir aðstæðum á mörkuðum, en á ákveðnum mörkuðum getur þetta gert það að verkum að einokun eða fákeppni viðhelst því það verður svo erfitt fyrir nýliða að koma inn. Síðan er þetta auðvitað stórmál fyrir neytendur sem hafa hagsmuni af öflugri samkeppni, en vilja einnig hafa almennt frelsi til að velja,“ segir Almar.

Kerfin skapa tortryggni

Hann bendir enn fremur á mikilvægi þess að tollaumhverfi, vörugjöld og skattar séu einfölduð. Almenningur eigi rétt á að skilja þau kerfi sem séu við lýði. „Vörugjalda- og tollakerfin er ótrúlega flókin og því miður eru þau til þess fallin að skapa tortryggni gagnvart því að verið sé að umbuna innlendri framleiðslu á óeðlilegan hátt. Sú spurning vaknar hvort kerfið sé flókið til þess eins að verja sjálft sig. Það er afleit staða því það er auðvitað hinn íslenski neytandi sem borgar fyrir það á endanum,“ segir Almar.

Það sé þess vegna hagur allra að kerfin séu einfölduð og engir tollar og engin vörugjöld verði að meginreglu. Einnig þurfi að taka umræðuna um þá hvort og á hvaða sviðum gera eigi undanþágur frá meginreglunni. Undanþágurnar verði þá að sjálfsögðu að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum.

Eins og áður sagði hefur Félag atvinnurekenda margsinnis bent á þá annmarka sem fylgja gjaldtöku í formi vörugjalda. Félagið segir að gjaldtakan einkennist af ógagnsæi og misræmi þar sem einstakir vöruliðir beri mun hærra gjald en aðrir, án þess að málefnalegar ástæður liggi fyrir þeirri mismunun. Það sé jafnframt stór galli á þessu fyrirkomulagi að vörugjöld séu ósýnileg endanlegum kaupanda og geri því verðlagningu ógagnsærri, sem að endingu getur leitt af sér sóun.

Kerfið þvingar embættismenn

Sem dæmi um misræmi í kerfinu bendir Almar á að sjónvarpsskjár ber 7,5% verðtoll og 25% vörugjöld en tölvuskjár ber hvorki toll né vörugjöld. Vegna örrar tækniþróunar hafa mörkin þarna á milli orðið sífellt óskýrari og er nú svo komið að tölvuskjáir hafa flesta þá tengimöguleika sem sjónvarpsskjáir hafa, en það er einmitt sá þáttur sem hefur meðal annars verið látinn ráða tollflokkun á skjám.

Félagið telur að vörugjöld og tollar eigi engan rétt á sér í þessu tilviki. Um sé að ræða neyslustýringu sem hafi þau sérkennilegu áhrif að ódýrara sé að horfa á sjónvarpsútsendingar í gegnum tölvu heldur en í gegnum sjónvarp.

„Kerfið þvingar embættismenn til að taka mjög erfiðar ákvarðanir. Þeir eiga að framfylgja valdi og það þýðir meðal annars að þeir þurfa að skilgreina hvaða vörur eigi við í hvaða tollflokkum,“ segir Almar.

Hann nefnir að vel sé hægt að gera skattkerfið hagkvæmt og gagnsætt með afnámi tolla og vörugjalda án kostnaðar fyrir ríkissjóð. Til dæmis megi stýra tekjuáhrifunum á ríkissjóð með ýmsum hætti, svo sem með því að hækka neðra þrep virðisaukaskatts tímabundið. Aðalatriðið sé að skattkerfið verði bæði einfalt og skýrt.

Eins fram hefur komið hefur Félag atvinnurekenda unnið að því að grisja þennan frumskóg tolla og vörugjalda og bent á ýmis dæmi um misræmi, og oft á tíðum ósanngirni, í kerfinu. Markmiðið er að efla vitund landsmanna um þetta flókna kerfi.

Félagið bendir meðal annars á að venjulegur hátalari beri engin vörugjöld en heyrnartól, sem notuð eru fyrir ýmiss konar tónhlöður, bera 25% vörugjöld. Heyrnartól bera einnig almennt 7,5% verðtoll, en engan verðtoll frá ríkjum innan Evrópska efnhagssvæðisins og fleiri ríkjum. „Þetta ber vott um þrautseigju kerfisins þannig að tiltölulega nýlegar vörur lenda í klóm aðflutningsgjalda og það án þess að hið opinbera virðist bregðast við með einhverjum hætti,“ segir Félag atvinnurekenda. Kerfið stuðli þannig að neyslustýringu án þess að nokkur ástæða sé til.

Tollar þrátt fyrir skort

Það hefur vakið furðu að þrátt fyrir skort á nautakjöti séu enn til staðar háir tollar á vörunni. Félagið segir að skorturinn hafi verið mikill og því hafi hart verið tekist á um þá tollkvóta sem atvinnuvegaráðuneytið úthlutar árlega. „Sumir stórir nautakjötsinnflytjendur fá stundum engan tollkvóta og geta því ekki flutt inn og selt nautakjöt á samkeppnisgrundvelli þar sem tollurinn er svo hár, bæði almennur tollur og EB-tollur, þ.e. tollur vegna innflutnings frá ríkjum innan Evrópusambandsins,“ bendir félagið á.

Sem dæmi sé 18% verðtollur og 877 króna magntollur á hvert kíló af nautalundum. Stundum hafi verið brugðist við skorti með því að gefa út almenna tollkvóta á nautakjöti, en í febrúar á þessu ári var það einmitt gert. Það þýðir að ótilgreindu magni af kjöti var hleypt inn í landið á lægri tollum.

„Þetta leiðir oft á tíðum til þess að þeir aðilar sem hafa boðið í hina árlegu tollkvótaúthlutun á mjög háu verði sitja uppi með þann kostnað á meðan aðrir geta flutt inn kjötið á lægri tollum,“ segir í umfjöllun Félags atvinnurekenda.

Hár tollur á lífrænt kjúklingakjöt

Áhugi á lífrænt ræktuðum kjúklingum hefur aukist til muna eftir að umræðan um verksmiðjubúskap og velferð dýra komst í hámæli. Ljóst er að töluverð eftirspurn er eftir lífrænu kjúklingakjöti, en það hefur hingað til ekki verið framleitt hér á landi. Til samanburðar er lífrænn kjúklingur um fimmtán prósent af heildarneyslu á kjúklingi í Danmörku. Engu að síður ber innfluttur lífrænn kjúklingur sama toll og sömu gjöld og venjulegir verksmiðjuframleiddir kjúklingar, sem nóg framboð er af hér á landi, eða 30% verðtoll og 439 króna magntoll á hvert kíló.

Verslunarfyrirtækið Hagar hefur óskað eftir því að tollkvótar á ost úr buffala-, geita- og ærmjólk verði opnaðir. Finnur Árnason, forstjóri Haga, hefur sagt eðlilegt að heimilt verði að flytja inn bæði ost og lífrænan kjúkling án innflutningstolla ef innlendir framleiðendur geta ekki annað eftirspurn. Því hefur ráðuneytið hins vegar hafnað.

Félag atvinnurekenda bendir á að þessir sérstöku ostar beri 30% verðtoll og að lagður sé 430 króna magntollur á hvert kíló af þeim þrátt fyrir að sambærilegir ostar séu ekki framleiddir á Íslandi. „Um er að ræða sömu álagningu og leggst á innflutta osta úr kúamjólk sem framleiddir eru í miklu magni á Íslandi,“ segir í umfjöllun félagsins.

Tollar þrátt fyrir litla framleiðslu

Félagið vekur einnig athygli á því að 50% verðtollur sé lagður á kartöflusnakk en enginn á kornsnakk frá ríkjum innan Evrópusambandsins. Almennt ber þó kornsnakkið 20% verðtoll og skiptir þá engu þótt afar lítil framleiðsla sé á því hér á landi.

Félagið bendir á að hér séu aðeins tveir framleiðendur og annar framleiðsla þeirra á engan hátt heildarneyslu neytenda á kartöflusnakki. „Allt bendir til þess, þar á meðal hin sveiflukennda uppskera á innlendum kartöflum, að innlenda framleiðslan á kartöflusnakki sé að miklu leyti búin til úr erlendu hráefni sem íslensku framleiðendurnir flytja inn til landsins annað hvort tollfrjálst eða á mjög lágum tollum.

Þessir háu tollar sem lagðir eru á innflutt kartöflusnakk eru því að vernda framleiðslu sem að mestu leyti er búin til úr innfluttu hráefni, neytendum til tjóns,“ segir Félag atvinnurekenda.

En hvað með franskar kartöflur?

Alls er 76% verðtollur lagður á þær. Í umfjöllun félagsins segir að aðeins einn framleiðandi, Þykkvabæjar, framleiði slíkar kartöflur hér á landi. Almennt hafi verið skortur á íslenskum kartöflum og því sé framleiðandinn fjarri því að anna eftirspurn neytenda eftir vörunni.

„Þykkvabæjar flytur því inn kartöflur erlendis frá, allt árið um kring, ýmist á 30% tollum eða tollfrjálst og notar þær meðal annars í framleiðslu á frönskum kartöflum. 2,8% af heildarframleiðslu kartaflna hérlendis fara í að búa til franskar kartöflur en sala Þykkvabæjar nemur eingöngu 7% af innanlandsneyslu vörunnar. Innan við 5% af þeirri sölu eru unnin úr íslenskum kartöflum.

Ofurtollur er því lagður á rúmlega 95% af neyslu Íslendinga á frönskum kartöflum undir því yfirskini að verið sé að vernda þau 5% sem eftir standa,“ segir í umfjölluninni.

iPod Touch er lófatölva – ekki afspilunartæki

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í seinustu viku að iPod Touch-spjaldtölvan frá Apple hefði um nokkurra ára skeið verið tollflokkuð með röngum hætti. Í dómnum kemur fram að fyrst um sinn hafi tölvan verið sett í tollflokkinn „hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki“ og seinna meir í „myndupptökutæki eða myndflutningstæki“. Stefnandinn í málinu, Skakkiturn ehf., sem er umboðsmaður Apple á Íslandi, taldi hins vegar að setja ætti tækið í tollflokkinn „sjálfvirkar ferðagagnavinnsluvélar og einingar til þeirra“. Sá flokkur ber engin gjöld eða tolla.

Að mati héraðsdóms reyndist síðastnefndi flokkurinn vera sá rétti og ber ríkinu nú að endurgreiða þær rúmar sextán milljónir króna sem Skakkiturn hafði áður greitt við innflutning tölvunnar.

Almar segir að Félag atvinnurekenda hafi aðstoðað stefnanda, og fylgt málinu eftir alveg frá byrjun, og að niðurstaðan sé ánægjuleg.

Engin vörugjöld á tölvum

Tollar og vörugjöld á tónlistarspilara eru samtals 32,5 prósent en eins og áður sagði eru engin slík gjöld lögð á tölvur sem fluttar eru til landsins. Almar bendir meðal annars á að hægt sé að nota tækið til að vafra um netið, senda tölvupósta, spila tölvuleiki og svo framvegis. Það sé alveg ljóst að um sé að ræða tölvu, en ekki vasadiskó. Enda segir í dómnum sjálfum:

„Með staðalbúnaði nýtist tækið meðal annars til þess að komast á veraldarvefinn, vera í tölvupóstsamskiptum eða öðrum stafrænum samskiptum og til að leika tölvuleiki, auk þess sem unnt er að taka upp hljóð og geyma og spila tónlist og myndefni á tækinu.

Þá getur notandinn hlaðið öðrum forritum inn á tækið og því lagað notkun þess að ákveðnu marki að eigin þörfum. iPod touch hefur því margþætt notagildi sem helgast af eiginleikum tækisins sem tölvu. Smæð tækisins kann að torvelda notkunarmöguleika þess við ákveðna vinnslu en opnar einnig á aðra möguleika.“

Vörugjöldin í endurskoðun

Almar segist vera bjartsýnn á að Bjarni Benediktssson, fjármála- og efnahagsráðherra, leggi fram frumvarp um einföldun á vörugjalda- og virðisaukaskattskerfunum í haust. Bjarni hefur skipað stýrihóp sem á að fjalla um málið, en markmiðið er að hverfa frá sértækri neyslustýringu með vörugjöldum og einfalda virðisaukaskattskerfið með minni mun á milli þrepa, færri undanþágum og auknu jafnræði milli skyldra atvinnugreina.

Meðal verkefna hópsins er að leita leiða til að breikka skattstofna og sporna við skattsvikum til að unnt verði að létta skattbyrði almennings og fyrirtækja auk þess sem meta á mögulegar mótvægisaðgerðir til að mæta þörfum tekjulægri hópa, eins og fram kemur á vef fjármálaráðuneytisins.

Í stýrihópnum eiga sæti þrír fulltrúar fjármálaráðuneytis, þau Guðrún Þorleifsdóttir lögfræðingur, Maríanna Jónasdóttir og Tómas Brynjólfsson skrifstofustjórar.

Efsta þrepið eitt það hæsta

Bjarni hefur sagt að brýn þörf sé á því að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Efsta þrepið er eitt það hæsta í heiminum en margsinnis hefur verið bent á að skilvirkni kerfisins haldist ekki í hendur við hátt skatthlutfall. Hefur það gefið töluvert eftir á síðari árum, bæði sem hlutfall af heildarskatttekjum ríkisins og landsframleiðslu.

Almar fagnar þessum tíðindum og segist vera bjartsýnn á að tillögur í þessa veru verði lagðar fram í haust. „Við erum hins vegar ekki eins bjartsýn á að auðvelt verði að kalla fram breytingar á landbúnaðarkerfinu og tollamúrunum sem vernda það. En við finnum þó meðbyr og munum vinna að málinu af krafti og baráttugleði,“ segir hann.

Í ræðu á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl sagðist Bjarni sjá það fyrir sér að vörugjöldin myndu fara af öllu nema stóru vörugjaldaflokkunum, bifreiðum, eldsneyti, áfengi og tóbaki. „Það er ekki ástæða til að vera með vörugjöld á öðrum flokkum,“ sagði Bjarni og bætti við:

„Við ætlum að einfalda kerfið með hag og þarfir fjölskyldunnar í huga. Það er löngu tímabært að viðurkenna að til dæmis ýmis heimilistæki eins og sjónvörp eru ekki lúxusvarningur sem ríkið á með hárri skattlagningu að vera að reyna að koma í veg fyrir að fólk kaupi sér.“ Hann sagðist einnig vilja sjá breytingar í áherslunni í umræðunni um tolla. Ekki ætti einungis að einblína á það hvernig við gætum fellt niður tolla, heldur athuga hvernig við gætum fengið fellda niður tolla á okkar vörur.

Félagið boðaði til fundar í vikunni þar sem hulunni var …
Félagið boðaði til fundar í vikunni þar sem hulunni var svipt af svonefndu ólukkuhjóli íslenskra vörugjalda og tolla. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
iPod Tocuh er lófatölva, en ekki afspilunartæki, samkvæmt nýjum dómi …
iPod Tocuh er lófatölva, en ekki afspilunartæki, samkvæmt nýjum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Ljósmynd/Apple
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK